Kári Freyr Kristinsson
„Þetta er yfirgripsmikil aðgerð og margslungin en við bindum vonir við að þetta muni ganga vel í samstarfi við Grindvíkinga.“
Þetta segir Úlfar Lúðvíksson, lögreglustjóri á Suðurnesjum, í samtali við mbl.is um áform um að hleypa Grindvíkingum í bæinn til að vitja eigna sinna.
Á upplýsingafundi um ástandið í Grindavík fyrr í dag kom fram hvernig íbúum og fyrirtækjaeigendum yrði hleypt í bæinn til að vitja þeirra.
„Hlutverk lögreglunnar, og annarra viðbragðsaðila, er að halda utan um og tryggja öryggi þeirra sem eru inni í Grindavík á hverjum tíma,“ segir Úlfar.
Fram kom á fundinum að íbúar og fyrirtækjaeigendur myndu fá þrjár klukkustundir til að vitja eigna sinna. Búist er við að íbúar um 300 heimila verði í bænum á sama tíma.
Hann segir öryggi munu vera tryggt með sama hætti og það hafi verið gert hingað til.
„Eins þurfa Grindvíkingar að lesa sig til og kynna sér skipulagið.“
Úlfar segir að samstarfið við Grindvíkinga hafi verið gott hingað til og segir það ná allt til ársins 2021.