Fyrir um ári lokaði Veðurstofa Íslands fyrir aðgang Háskóla Íslands að veðurgagnabanka stofunnar. Þetta staðfestir Haraldur Ólafsson, prófessor í veðurfræði við HÍ, í samtali við mbl.is og kveður lokunina fræðasamfélaginu – og raunar fleirum – bagalega.
„Einn helsti tilgangur veðurstofu er, eins og kemur reyndar fram í lögunum [um Veðurstofu Íslands, nr. 70/2008], að mæla og safna gögnum um náttúrufar á Íslandi, aðallega veðurtengdum þáttum, allt frá efstu lögum jarðvegs og góðan spotta upp í andrúmsloftið,“ segir prófessorinn.
Kveður hann haldgóð gögn um þetta forsendu þess að spáð sé rétt og skynsamlegar ákvarðanir teknar um landnýtingu, mannvirki og annað sem háð sé veðri. „Það sem mælt er í dag mun nýtast um ókomna tíð, meðal annars til að skilja breytileikann i veðrinu og veðurfarinu,“ heldur Haraldur áfram og leggur í framhaldinu áherslu á að þarna megi ekki kasta til höndunum.
Hafi veðurstofan um langa hríð sent frá sér spár ýmsar og viðvaranir sem Haraldur telur að vafalaust muni halda áfram. Fleiri komi hins vegar að veðurfræðum. „Það eru margir sérfræðingar sem ekki starfa á veðurstofunni sem myndu sinna því með glöðu geði ef svo bæri undir – að því gefnu að gögnin bærust og væru í góðu lagi,“ segir hann enn fremur.
Telur Haraldur mikilvægt að ríkisveðurstofa sinni verkefnum sínum af kostgæfni og þá ekki síst þjónustu við þá aðila sem einhver gæti ætlað að væru í samkeppni við stofuna hvort heldur sem væri í veðurspám eða hvers kyns rannsóknum.
„Þjónustulunduð veðurstofa leiðir af sér frjóan jarðveg fyrir nýsköpun og framfarir,“ segir Haraldur. „Í svoleiðis umhverfi skapast tækifæri fyrir fyrirtæki til að sinna verkefnum um allan heim sem sómi er að, verkefnum sem standa undir því að greiða mörgum sérfræðingum ágæt laun.“
Eigi sá áskilnaður vitaskuld ekki aðeins við um þjónusturannsóknir á borð við fýsileika vindorkugarðs í Afríku eða vegagerð í Brasilíu heldur einnig grunnrannsóknir sem háðar séu góðum mælingum, helst yfir lengri tíma.
„Veðurathuganir á Íslandi hafa löngum verið ágætar, en síðari ár hafa blikur verið á lofti í þeim efnum,“ heldur Haraldur áfram. Ýmsar athuganir hafi hljóðlaust verið lagðar af. Brýnt sé að sækja fram í þeim málum – og nýta fjármuni sem til þess eru ætlaðir af ráðdeild og skynsemi.
„Vandaðar veðurathuganir og rannsóknir haldast hönd í hönd. Ef annað bilar er þess ekki langt að bíða að hitt láti undan. Meðal annars þess vegna er mikilvægt að stunda rannsóknir á veðurstofu og leitast við að svara mikilvægum spurningum um náttúrufar og nýta til þess nýjustu gögn og reiknigetu sem alltaf fleygir fram,“ segir prófessorinn.
Slíkar rannsóknir sé best að stunda fyrir opnum tjöldum og í samvinnu við alla sem vilji leggja þeim lið. Viðeigandi sé að niðurstöður slíkra verka séu öllum aðgengilegar.