Alls hafa 10 eldingar mælst á eldingakerfi Veðurstofu Íslands frá klukkan 9 í morgun og hafa þær mælst suður af Vestamannaeyjum og austur af Höfn í Hornafirði.
Þetta segir Óli Þór Árnason, veðurfræðingur hjá Veðurstofu Íslands, í samtali við mbl.is.
Ekki er hægt að útiloka einstaka þrumur og eldingar á suðvesturhorninu í dag, en íbúar á höfuðborgarsvæðinu hafa heyrt drunur sem og starfsfólk á Veðurstofunni. Eldingakerfið hefur þó ekki mælt neinar eldingar nálægt höfuðborgarsvæðinu.
Óli segir kerfið vera ófullkomið og því ekki hægt að slá því föstu að engar eldingar hafi slegið niður á suðvesturhorninu.
Sjálfur kveðst hann hafa heyrt drunur áðan frá höfuðstöðvum veðurstofunnar hjá Bústaðavegi.