Ætla ekki Krýsuvíkurleiðina í næsta holli

Kristín og Ólafur voru hress í bílnum sínum á leið …
Kristín og Ólafur voru hress í bílnum sínum á leið frá Grindavík. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Hjónin Ólafur Þórarinsson og Kristín Þorkelsdóttir voru stödd við lokunarpóst á  leið frá Grindavík um Norðurljósaveg með muni frá heimili sínu þegar blaðamaður náði tali af þeim í morgun.

„Við lentum í brjáluðu veðri í Krýsuvík. Það voru fleiri, fleiri bílar stoppaðir, við bara komust ekkert áfram,“ segir Kristín.

Ólafur bætir við að það hafi líklega tekið um klukkutíma fyrir þau að fara frá afleggjaranum frá sandnámunum niður á Suðurstrandaveg.

„Þetta er vitað mál, að vera að fara Krýsuvíkurleiðina á þessum tíma, það er ekkert þægilegt,“ segir Kristín jafnframt.

„Málið er bara að þetta var svo illa rutt, þetta var ekki fyrir nema vel búna bíla, það er ekkert hugsað um að ryðja,“ bætir Ólafur við.

Lokunarpóstur viðbragðsaðila skammt frá Bláa lóninu.
Lokunarpóstur viðbragðsaðila skammt frá Bláa lóninu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Stóra dótið í næsta holli

Kristín segir að allt hafi gengið vel þegar í Grindavík var komið, þó ekki fyrr en um tíuleytið, töluvert seinna en þau höfðu vonast eftir. Þar eiga þau íbúð í parhúsi en náðu að fylla bíllinn af munum á tiltölulega skömmum tíma.

„Svo er allt stóra dótið eftir,“ segir Ólafur og tekur fram að það verði tekið í næsta holli ef þau þurfa ekki að fara Krýsuvíkurleiðina.

Hafa búið í hjólhýsi

Þau hjónin hafa annars búið í hjólhýsi frá 10.  nóvember, allt til dagsins í dag þegar þau fengu loksins íbúð í Reykjavík.

„Það er meira en að segja það að fá íbúð,“ segir Ólafur og Kristín heldur áfram: „Það er auðvelt að tala en verra að framkvæma.“

Bílar við lokunarpóstinn.
Bílar við lokunarpóstinn. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Hvernig fór um ykkur í hjólhýsinu?

„Í svona leiðindaveðri er það ömurlegt skal ég segja þér,“ svarar Kristín, en hjólhýsið var hjá heimili tengdadóttur þeirra í Njarðvík. Þar voru einnig foreldrar hennar í hjólhýsi.

„Þar höfðum við smá afdrep,“ heldur Kristín áfram en nefnir að margir hafi verið á heimilinu og því ekki úr miklu plássi að moða.

Eru þau því óskaplega fegin að vera loksins komin í íbúðina í höfuðborginni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert