Grindvíkingarnir Jakob Sigurðsson og Sara Símonardóttir ákváðu að freista þess að komast til Grindavíkur í dag um Norðurljósaveg í stað þess að fara eftir Krýsuvíkurvegi eins og gefin höfðu verið fyrirmæli um.
Bílar hafa verið stopp á Krýsuvíkurvegi, enda færðin slæm.
Jakob og Sara búa núna í Reykjanesbæ og ræddu þau við viðbragðsaðila sem voru að störfum við lokunarpóst sem hefur verið settur upp við Norðurljósaveg, skammt frá Bláa lóninu.
„Við erum í sambandi við fólk þar [á Krýsuvíkurvegi]. Það er allt stopp þar, fólk út af og búið að vera í allan morgun,” sagði Jakob.
Í Grindavík ætluðu þau að sækja helstu nauðsynjar og raða einhverjum fleiri upp sem þau geta síðan sótt þegar þau fá að fara aftur inn bæinn.
Þau hafa ekki fengið að fara inn í húsið sitt síðan fyrir jól og ekki heldur fyrirtæki sín Harbour View og Fjórhjólaævintýri. Þau vita því ekki hversu illa húsnæðið hefur farið í jarðhræringunum í bænum. Einbýlishúsið þeirra er þó ekki staðsett nálægt svæðinu þar sem hraunið rann inn.
Vitaskuld segjast þau hafa áhyggjur af skemmdum, þar á meðal frostskemmdum og illa förnum lögnum.