Elding sprengdi rafmagnstöflu Litlu kaffistofunnar

Tjón varð á rafmagni Litlu kaffistofunnar laust eftir hádegi í …
Tjón varð á rafmagni Litlu kaffistofunnar laust eftir hádegi í dag. mbl.is/Sigurður Bogi

Rafmagn fór af með hvelli á Litlu kaffistofunni á Suðurlandsvegi laust eftir hádegi í dag er eldingu sló niður við hlið staðarins.

Þetta staðfestir Elín Hlöðversdóttir, eigandi Litlu kaffistofunnar, í samtali við mbl.is. Hún segir öll raftæki hafa slegið út og því fátt annað í stöðunni en að loka staðnum og senda starfsfólk heim, en starfsfólk hafi vissulega orðið ansi skelkað. 

„Það bara kom svakalegur hvellur og starfsmennirnir sem voru á svæðinu héldu að mögulega hefði orðið sprenging, sem í rauninni var, það varð sprenging utan á húsinu. Rafmagnstaflan sem er fyrir utan hjá okkur bara sprakk,“ segir Elín.  

Mjög fallegur blossi 

Predrak Moraca rafvirki varð vitni að atburðunum þar sem hann sat og gæddi sér á hádegisverði ásamt tveimur samstarfsmönnum sínum á kaffistofunni.

„Það var greinlegur blossi, mjög fallegur blossi þarna nálægt kaffistofunni og í kjölfarið heyrðust litlar sprengingar í rafmagnsofnum, svona neistahljóð,“ segir Predrak.

Hann segir starfsfólkið þá hafa uppgötvað að flest rafmagnstækin væru hætt að virka. Hann og samstarfsfélagar hans hafi þá ráðlagt þeim að taka allt úr sambandi og hringja í tryggingafélagið, en þeir hafi ekki getað aðstoðað frekar þar sem þeir hafi ekki haft viðeigandi mæla og verkfæri meðferðis. 

Leist ekki á blikuna

Predrak segir sig og félagana hafa fyrst tekið eftir eldingum úr fjarska og hafi þær í fyrstu virst vera í Bláfjöllum. Þeir hafi þá byrjað að rökræða sín á milli hvort um eldingar væri að ræða og byrjað að telja sekúndurnar á milli þeirra eftir því sem þær nálguðust, en í fyrstu hafi þeir ekki heyrt í þrumunum. Kveðst Predrak hafa talið um átta eldingar.

„Eldingarnar virtust vera láréttar en ekki lóðréttar á milli skýjanna. Það sást varla í Bláfjöll bara svona í skuggann af Bláfjöllum, það var svo mikil úrkoma. Áður en síðustu eldingunni sló niður nálægt Kaffistofunni þá kom þvílíkt haglél.“

Predrak sem sjálfur ólst upp erlendis, og er því vanur þrumum og eldingum, segir vægast sagt óvenjulegt að sjá eldingar á þessum árstíma. Honum og félögum hans hafi því ekki litist á blikuna á einum tímapunkti og voru farnir að velta fyrir sér hvers kyns náttúruöfl kynnu að liggja að baki blossana. 

Telur að húsið sé í lagi

Er blaðamaður mbl.is náði tali af Elínu kvaðst hún vera á leið á staðinn til að taka stöðuna á tækjum og búnaði. 

Hún hafi byrjað á því að láta Veitur vita af því að eldingu hefði slegið niður í rafmagnstöfluna og hafi því viljað bíða þar til starfsmenn þeirra hefðu klárað að laga rafmagnið. 

„Við eigum eftir að skoða húsið sjálft en ég held að það sé allt í góðu þannig,“ segir Elín. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert