Fær ekki að flytja inn norskar hænur

Íslenski hænsnastofninn er talinn vera í útrýmingarhættu.
Íslenski hænsnastofninn er talinn vera í útrýmingarhættu. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Matvælaráðuneytið hefur staðfest þá niðurstöðu Matvælastofnunar að synja einstaklingi um leyfi til að flytja inn tvo hænsnastofna frá Noregi.

Sótt var um innflutningsleyfi hjá Matvælastofnun til að flytja inn 60 frjó hænsnaegg frá norska genabankanum, í þeim tilgangi að koma á fót litlu ræktunarbúi og selja hænur af þeim hænsnastofni til þeirra sem hafa áhuga á að stunda smábúskap og halda bakgarðshænur sem gæludýr og til eigin eggja- og kjötframleiðslu.

Matvælastofnun hafnaði umsókninni og byggði á niðurstöðu meirihluta erfðanefndar landbúnaðarins sem taldi að með innflutningi þessara hænsnastofna ykjust líkur á erfðablöndun við íslenska hænsnastofninn og þar með útþynningu hans. Auk þess geti innflutningur á stofnum sem séu samnytja skapað aukna samkeppni við íslensku landnámshænuna sem geti leitt til fækkunar stofnsins en um sé að ræða viðkvæman stofn sem beri að vernda eftir fremsta megni. Um 3-4.000 fuglar eru í íslenska hænsnastofninum og hann telst í útrýmingarhættu.

Sá sem sótti um innflutningsleyfið kærði niðurstöðuna til matvælaráðuneytisins og taldi m.a. að Matvælastofnun hefði ekki virt stjórnarskrárbundin réttindi hans til atvinnu og misbeitt valdi sínu á grunni vafasamrar umsagnar frá meirihluta erfðanefndar landbúnaðarins. Afleiðingin væri opinber samkeppnishindrun á markaði fyrir hænsnastofna sem henti í smábúskap sem og bakgarðshænsni.

Ráðuneytið taldi hins vegar að Matvælastofnun hefði verið að heimilt að byggja mat sitt á umsögn erfðanefndarinnar enda hefði að mati ráðuneytisins ekkert komið fram sem benti til þess að hún væri efnislega röng eða byggð á ómálefnalegum sjónarmiðum.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert