Kvika kann að krauma undir Húsfellsbruna

Kuldinn hefur læst gróðurinn greipum sínum í Heiðmörk. Skammt þar …
Kuldinn hefur læst gróðurinn greipum sínum í Heiðmörk. Skammt þar frá, í skjóli hyldjúps skugga, gætu logar nú leikið eftir þúsaldar þögn. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Hrina jarðskjálfta, sem hófst skammt suðaustur af Heiðmörk á föstudag og jókst að umfangi um helgina, kann að gefa til kynna kvikusöfnun á töluverðu dýpi.

Þetta segir Þorvaldur Þórðarson, prófessor í eldfjallafræði við Háskóla Íslands, í samtali við Morgunblaðið.

Umfjöllun mbl.is um hrinuna og upptakasvæði hennar vakti mikla athygli um helgina. Skjálftarnir eiga enda upptök sín undir Húsfellsbruna, því hrauni sem næst rann Reykjavík á síðasta gosskeiði Reykjanesskagans.

Kerfin farin að undirbúa sig

„Þetta gætu hugsanlega verið skjálftar vegna uppbyggingar spennu neðst í jarðskorpunni,“ segir Þorvaldur.

„En þeir gætu líka gefið til kynna einhverja samansöfnun kviku á mörkum deigu og stökku skorpunnar, þarna undir.“

Húsfellsbruni, eins og skjálftarnir sem nú verða, tilheyrir Brennisteinsfjallakerfinu, einu nokkurra eldstöðvakerfa Reykjanesskagans. Þorvaldur kveðst efast um að skjálftarnir leiði til einhverra umbrota á næstunni.

„En ég held að þetta sé í raun að segja okkur að þessi kerfi eru komin í gang. Og þau eru farin að undirbúa sig.“

Ítarlegri umfjöllun er að finna í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert