Lykilvegir vestanlands gætu hæglega teppst í dag en horfur eru á hríðarbyl yfir miðjan daginn, frá hádegi og þar til síðdegis.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá Einari Sveinbjörnssyni, veðurfræðingi hjá Vegagerðinni.
Spáð er 14 til 18 metrum á sekúndu, blindfærð og skafrenningi. Segir Einar að lykilleiðir eins og Holtavörðuheiði, Brattabrekka og Steingrímsfjarðarheiði geti hæglega teppst.
Eins og mbl.is greindi frá fyrr í morgun þá eru hálkublettir á flestum stofnleiðum á höfuðborgarsvæðinu og eitthvað um hálku. Ástæða er til að brýna fyrir fólki að fara varlega í morgunumferðinni, að er kemur fram í tilkynningu Vegagerðarinnar. Víðar er þungfært eða ófært á þjóðvegum en unnið er að snjómokstri.