„Það er ekki raunhæft að verja þessa hlíð“

Bragi segir enga leið að verja Súðavíkurhlíð enda sé fjallið …
Bragi segir enga leið að verja Súðavíkurhlíð enda sé fjallið bratt og 600 metrar á hæð. mbl.is/Sigurður Bogi

Um fimmtán til tuttugu manns gistu í fjöldahjálparstöð í íþróttahúsinu í Súðavík í nótt vegna snjóflóðs sem féll úr Súðavíkurhlíð í gærkvöldi. 

Bragi Þór Thoroddsen, sveitarstjóri Súðavíkurhrepps, telur að bílar hafi verið beggja vegna flóðsins er það féll. Flóðið féll á veginn milli Ísafjarðar og Súðavíkur.

Um tíu til fimmtán manns til viðbótar var komið fyrir í heimahúsum, en Bragi segir bæði um fjölskyldufólk og atvinnubílstjóra að ræða.

Í samtali við mbl.is segir hann veginn hafa verið opnaðan á ný í morgun en Súðvíkingar hafi þurft að venjast allt of tíðum flóðum, lokunum og óöryggi á vegum. 

Orðið að brandara í Súðavík 

„Þetta er orðin svo langur tími sem þetta hefur verið svona og það hafa verið gerðir skápar á hlíðinni, sett upp þil í vegrásina, en það er svo skondið að það eru 22 farvegir skráðir á Súðarvíkurhlíðinni og það er nú bara happdrætti hvort þau falla inn í þessa skápa eða annars staðar,“ segir Bragi. 

Segir hann svokallaða skápa, um tveggja metra há stálþil, vera staðsett á þremur stöðum í hlíðinni ef hann muni rétt. Öryggi vegfarenda sé því með engu tryggt eins og hafi komið berlega í ljós í gær. 

„Það hefur stundum verið svolítill brandari hérna í Súðavík að kannski eftir heilan vetur þá hafa kannski eitt eða tvö flóð fallið inn í skápana en restin farið framhjá,“ segir Bragi.

Íbúar búi við tíðar lokanir vegna hættu, en til að mynda hafi veginum verið lokað 40 sinnum á fyrstu þremur mánuðunum árið 2020, eða það sem nam um 396 klukkustundum. 

Yrðu hagkvæmustu göng á landinu

„Það er ekki raunhæft að verja þessa hlíð, það eina raunhæfa í stöðunni er að klára það sem hefur staðið til í 30-40 ár. Það er að gera jarðgöng hérna á milli Skutulsfjarðar og Álftafjarðar,“ segir Bragi. 

„Þetta er 600 metra fjall, snarbratt. Það er engin að fara að verja það.“ 

Hann segir margoft hafa verið ályktað um málið á Alþingi, en göngin hafi dottið inn og út af samgönguáætlun síðustu áratugi, en sé í núverandi samgönguáætlun. 

„Ég held að fyrir utan allt þá væru þetta hagkvæmustu göng á landinu. Fyrir utan öryggishlutann er gríðarlega mikil uppbygging hérna á Vesturfjörðum í atvinnu og þessum frábæra umdeilda atvinnuvegi fiskeldis í sjókvíum og fleira til. Þetta hefur miklu meiri þýðingu en fyrir okkur, þetta hefur þýðingu fyrir Vestfirðina alla og alla þá sem keyra þessa leið.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert