Óhætt er að segja að ánægju ýmissa þingmanna með Smiðju, hina nýju skrifstofubyggingu Alþingis, sé mjög í hóf stillt. Þannig er þingmönnum bannað að hengja upp myndir á veggi í skrifstofum sínum, þeir mega heldur ekki hafa eigin húsgögn þar inni en þurfa að sætta sig við sófa sem Alþingi leggur þeim til, svo nokkuð sé nefnt.
Þannig segist Bergþór Ólason þingmaður Miðflokksins vilja losna við téðan sófa af skrifstofu sinni, en setja inn hægindastól í sinni eigu í staðinn, en fær þvert nei við þeirri ósk. Hann segir sófann vera þann „óþægilegasta sem hannaður hefur verið“. Bergþór glímir við bakveiki og vill af þeim sökum hafa stól á sinni skrifstofu sem hann getur setið í með góðu móti.
En fleira segir Bergþór gagnrýnisvert. „Það er greinilegt að það er fullkomið skilningsleysi á störfum þingmanna hjá hönnuðum hússins, þingflokkum er grautað saman,“ segir hann og nefnir að starfsmönnum þingflokka hafi verið ætlað að vinna saman í opnu rými. Aðskilnaður þingflokka sé enginn hvað skrifstofur varðar sem séu aukinheldur „agnarsmáar“.
„Þetta er eins kalt og sálardrepandi og hægt er að hafa það,“ segir Bergþór.
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir þingmaður Viðreisnar kannast ekki við almenna óánægju þingmanna með þá aðstöðu sem þeim er sköpuð í hinni nýju byggingu. Þó séu fáein praktísk atriði sem betur mættu fara.
„Það væri betra ef ekki væri hljóðbært á milli skrifstofa þingmanna,“ segir Þorgerður Katrín og bætir við að ef einhverjir agnúar séu á húsnæðinu geri hún ráð fyrir að þeir verði sniðnir af.
„Þetta eru spennandi tímar. Ég er nokkuð sátt, þetta er bara svolítið brokkgengt í byrjun,“ segir Þorgerður Katrín.
Hún segist vera með ýmsa persónulega muni á skrifstofu sinni og nokkrar myndir bíði þess að fara á veggi skrifstofunnar.
„Þær verða settar upp,“ segir hún.
Eyjólfur Ármannsson, þingmaður Flokks fólksins, er ósáttur við sína skrifstofuaðstöðu sem hann segist ekki gera ráð fyrir að nota.
„Útsýnið úr minni skrifstofu er bara hvítur veggur, ég gæti eins verið lokaður inni á Litla-Hrauni,“ segir Eyjólfur. „Mér líður eins og ég sé í húsi sem ekki er hannað fyrir mig, heldur arkitektinn. Ég sé ekki að farið hafi fram nein greining á þörfum þingmanna,“ segir hann og nefnir að þingmönnum sé bannað vera með persónulega muni á skrifstofum sínum, séu þeir ekki í stíl við bygginguna.
Ragna Árnadóttir skrifstofustjóri Alþingis segist skynja almenna ánægju meðal þingmanna með nýja húsnæðið, „glæsilega aðstöðu fastanefnda, þingmanna og starfsfólks“, segir hún. Tekið geti tíma að venjast breytingum, en máli skipti að gefa nýju umhverfi tíma og ekki breyta nema að vel ígrunduðu máli. Tekið sé á móti ábendingum og óskum frá þingmönnum og starfsfólki á sérstöku netfangi.
„Við höfum ekki heimilað að þingmenn komi með sinn eigin húsbúnað á skrifstofur. Þær eru um tíu fermetrar hver og allt plássið skipulagt til hins ýtrasta. Í fyrsta sinn sitja nú allir þingmenn við sama borð og aðstaða þeirra er sú sama. Það má með tímanum hengja upp málverk en verið er að finna lausn til að hlífa veggjum, þetta hús mun standa mjög lengi og öll inngrip þurfa að vera nauðsynleg,“ segir Ragna Árnadóttir.