Þjóðarsjóður, sem hefur það hlutverk að bregðast við ófyrirséðum áföllum í þjóðarbúinu, er á þingmálaskrá Þórdísar Kolbrúnar Reykfjörð Gylfadóttur, fjármálaráðherra. Hún segir þó að ekki verði greitt inn á slíkan sjóð fyrr en skuldahlutfall hefur verið greitt niður.
„Ég geri ráð fyrir því þetta verði rætt í þinginu á næstunni,“ segir Þórdís Kolbrún.
Hugmyndir um slíkan þjóðarsjóð eru ekki nýjar af nálinni og kynnti Bjarni Benediktsson, fyrrum fjármálaráðherra hugmyndir um hann árið 2016. Þá var hann í stjórnarsáttmála ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks, Vinstri grænna og Framsóknarflokks árið 2017. Þá stóð til að setja frumvarp um þjóðarsjóð á dagskrá þingveturinn 2018-2019 en ekki varð af því.
Sigurður Kári Kristjánsson, stjórnarformaður Náttúruhamfaratryggingar Íslands, sagði í aðsendri grein í Morgunblaðinu í gær að nauðsyn þjóðasjóðs blasi við.
„Ég hef komið inn á það sérstaklega í ljósi þeirra atburða sem blasa við okkur í Grindavík og það sem vísindamenn segja við okkur um framhaldið að það sé ábyrgðarhluti að setja á fót hamfarasjóð, eða þjóðarsjóð á laggirnar,“ segir Þórdís.
Aðspurð segir Þórdís að umræður um húsnæðismál Grindvíkinga séu komnar vel á veg og séu á áætlun en talað var um að útfærslur til handa Grindvíkingum myndu liggja fyrir snemma í febrúar.
„Samtal við fjármálastofnanir og lífeyrissjóðir ganga nokkuð vel. Ég leyfi mér að vera bjartsýn að við náum saman um heildarlausn,“ segir Þórdís.
Fundur verður í vikunni með samráðsnefnd allra flokka um málefnið og segir Kolbrún ekki tímabært að segja nánar til um þá útfærslu sem helst er til skoðunar.