Eldvirknibeltið sem gert hefur vart við sig nærri Grindavík nær frá Reykjanesi að Hengli að sögn Þorvaldar Þórðarsonar eldfjallafræðings.
Á því eru 6-7 staðir sem gjósa mun á ef að líkum lætur og spannar eldgosatímabil á bilinu 300 til 400 ár.
Hann segir að dæmin sanni að eldgos verði regluleg á tímabilinu þó erfitt sé að spá fyrir um nákvæma tímasetningu.
Almennt sé þó hægt að segja að á hverjum stað muni eldgosin vara í 10-20 ár og þau færi sig til til á 30-50 ára fresti.
Hann segir að margir vísindamenn séu sammála sér hvað þessa atburðarás varðar þó einhverjar deildar meiningar geti verið um tímasetningar.
„Ég held að það sé mjög mikilvægt fyrir okkur að fara að hugsa um hvað er líklegt að fari að gerast á mismunandi gosreinum og hvað við getum gert til að draga úr áhrifum þess á daglegt líf,“ segir Þorvaldur.
Hann segir að enginn sé að segja að þessir atburðir muni eiga sér stað á morgun, hvað nýja gosstaði varðar.
„En er ekki betra fyrir okkur að reyna að átta okkur á því núna hvað getur gerst og hvað við getum gert til að spyrna við þessum atburðum og vernda okkar innviði þannig að við getum haldið áfram að lifa lífinu eins og við viljum?“ spyr Þorvaldur.