Viðar Guðjónsson
Óráðlegt er að reisa byggð austan Elliðavatns ef menn hafa aðra kosti að mati Þorvaldar Þórðarsonar, prófessors í eldfjallafræði við Háskóla Íslands. Ástæðan er sú að líkur eru á því að eldfjallakerfi í Bláfjöllum, Krísuvík eða Heiðmörk vakni eftir langan dvala á næstu árum eða áratugum.
Hraunrennsli frá fyrri tíð sýni að það getur náð að byggð í Reykjavík, Kópavogi, Hafnarfirði og Garðabæ. Hann segir mikilvægt að gera hættumat fyrir svæðið og horfa til framtíðar varðandi skipulag byggðar.
Þorvaldur segir þá gíga sem eru nærri höfuðborgarsvæðinu hluta af eldgosakerfi Reykjanesskaga sem nú hefur gert vart við sig í og við Grindavík.
„Mann grunar að kerfi sem hafa verið róleg í 800 ár séu farin að taka við sér aftur. Það er í samræmi við þau eldgosatímabil sem við þekkjum í sögunni,“ segir Þorvaldur.
Hann segir ekki hættu á eldgosi í byggð á höfuðborgarsvæðinu. Hins vegar sé hætt við því að hraunrennsli nái til byggðar og innviða. Eins telur Þorvaldur ekki ráðlegt að reisa flugvöll í Hvassahrauni. „Ef menn ætla að fjárfesta í slíkum innviðum, er þá ekki sniðugra að setja það í gang á svæðum sem eru í annars konar hættu en Hvassahraun, því Hvassahraun er á svipuðu hættusvæði og Keflavíkurflugvöllur,“ segir Þorvaldur.