Kjarasamningar vel á annað hundrað þúsund launamanna á almenna vinnumarkaðinum renna út á morgun og þar með fellur friðarskylda stéttarfélaga þeirra úr gildi. Samningar nær allra stéttarfélaga í ASÍ losna nú um mánaðamótin en allt að 115 þúsund virkir félagsmenn eru í aðildarfélögum ASÍ.
Fleiri kjarasamningar renna sitt skeið á morgun, m.a. samningur Samtaka starfsmanna fjármálafyrirtækja (SSF) við Samtök atvinnulífsins en félagsmenn SSF eru rúmlega 3.500 talsins.
Samningar aðildarfélaga BSRB vegna starfsfólks í opinberum hlutafélögum eru einnig lausir í lok janúar. Þar er m.a. um að ræða samninga Sameykis við SA vegna starfsfólks hjá Isavia, í Fríhöfninni, hjá Orkuveitu Reykjavíkur og Rarik, samning Póstmannafélags Íslands við Íslandspóst, samning Félags flugmálastarfsmanna ríkisins við Isavia og samninga Kjalar stéttarfélags vegna starfsmanna hjá Norðurorku og Orkubúi Vestfjarða. Ná þessir samningar BSRB-félaganna til á annað þúsund félagsmanna.
Kröfugerðir þessara félaga eru frágengnar en viðræður eru vart byrjaðar vegna óvissu um framvinduna í yfirstandandi kjaradeilu breiðfylkingar landssambanda og stærstu félaga í ASÍ og SA.
Deilu breiðfylkingarinnar við SA var vísað til ríkissáttasemjara í seinustu viku. Fagfélögin svonefndu innan ASÍ, Rafiðnaðarsambandið, VM og Matvís, vísuðu viðræðum þeirra við SA til sáttasemjara fyrr í þessum mánuði. Fundað hefur verið nokkuð reglulega í þeirri deilu að undanförnu, seinast í gær. Ástráður Haraldsson ríkissáttasemjari staðfesti í samtali við blaðamann Morgunblaðsins að breiðfylking stéttarfélaganna og Samtök atvinnulífsins hefðu verið boðuð á fund hans í Karphúsinu og að sest yrði að samningaborðinu á miðvikudag klukkan tvö.
Nánar má lesa um málið í Morgunblaðinu í dag.