Skert skyggni og vetrarfærð um allt land

Ljósmynd/Valur M. Eyjólfsson

Vetrarfærð er um allt land og víða er verulega skert skyggni, einkum á fjallvegum.

Snjóflóð féll úr Súðavíkurhlíð í gærkvöldi og er hún lokuð. Aðstæður verða kannaðar þegar fer að birta. Þetta kemur fram á vef Vegagerðarinnar, umferdin.is.

Suðvesturhornið

Á höfuðborgarsvæðinu eru hálkublettir á vegum og éljagangur á öllum leiðum.

Hálkublettir og éljagangur er á Reykjanesbraut en snjóþekja nokkuð víða á Suðurnesjum. Snjóþekja og skafrenningur eða éljagangur er á Hellisheiði og í Þrengslum. Hálka, snjóþekja eða krapi er á flestum öðrum leiðum en þæfingsfærð og éljagangur á Mosfellsheiði og á Bláfjallavegi.

Ljósmynd/Valur M. Eyjólfsson

Suðurland

Búið er að opna Hringveg á ný eftir lokun vestur af Pétursey í gærkvöldi. Þæfingsfærð og éljagangur er frá Selfossi og langleiðina að Vík. Snjóþekja og snjókoma eða éljagangur er á flestum leiðum og jafnvel eitthvað um þæfingsfærð.

Vesturland og Vestfirðir

Flughálka og éljagangur er á Snæfellsnesvegi um Staðarsveit. Hálka og skafrenningur er á Holtavörðuheiði. Snjóþekja eða hálka og éljagangur eða skafrenningur er á flestum leiðum á Vesturlandi. Vegurinn um Fróðárheiði er lokaður.

Þungfært er á Mikladal en þæfingsfærð á Hálfdán og einnig á Ennishálsi. Hálka eða snjóþekja er á flestum öðrum leiðum á Vestfjörðum og skafrenningur víða. Lokað er á Dynjandisheiði og ófært norður í Árneshrepp.

Ljósmynd/Valur M. Eyjólfsson

Norðurland

Flughálka er á Siglufjarðarvegi og innarlega í Langadal. Hálka eða snjóþekja er á flestum leiðum á Norðurlandi.

Hálka og hálkublettir eru á flestum leiðum á Norðausturlandi og eitthvað um skafrenning.

Snjóþekja og skafrenningur er á Háreksstaðaleið.

Þungatakmarkanir eru á brúnni yfir Skjálfandafljót á Norðausturvegi (85) fyrir vörubifreiðar yfir 3.500 kg að heildarþyngd og fólksflutningabifreiðar/hópbifreiðar ætlaðar til að flytja fleiri en átta farþega.

Austurland og Suðausturland

Hálka, snjóþekja og skafrenningur er á Fjarðarheiði. Ófært er á Öxi og Breiðdalsheiði.

Sést hefur til hreindýra við vegi í Álftafirði, Hamarsfirði og Berufirði og eru vegfarendur beðnir um að sýna aðgát.

Hálka er á flest öllum leiðum á Suðausturlandi. Sést hefur til hreindýra við veg í nágrenni við Jökulsárlón og eru vegfarendur beðnir um að sýna aðgát.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka