Varasamt ferðaveður á morgun

Fólk er hvatt til þess að fylgjast með veðurspám á …
Fólk er hvatt til þess að fylgjast með veðurspám á morgun. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Mikil lausamjöll er nú yfir suðvestanverðu landinu og því umtalsverður skafrenningur og eins él og snjókoma. Bæði verður blint og hætt við verulegri ófærð jafnt innan bæjar sem á vegum á morgun.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Einari Sveinbjörnssyni, veðurfræðingi Vegagerðarinnar. Þar segir jafnframt að fyrir hádegi á morgun og þar til sídegis hvessi með vestan átt um allt suðvestanvert landið. 

Vestan kaldi og áfram él 

Í hugleiðingum veðurfræðings hjá Veðurstofu Íslands segir að hægfara lægð sé nú á Grænlandshafi sem beinir svalri suðvestlægri átt til Íslands.

Víða séu því 10-18 metrar á sekúndu, dimm él og hvasst í éljahryðjum. Hins vegar lægir í kvöld og nótt að því er fram kemur í hugleiðingunni og yfirleitt úrkomulítið um landið norðaustanvert. 

Á morgun verður síðan vestan kaldi eða strekkingur og áfram él. Um hádegi er útlit fyrir að það hvessi á sunnanverðulandinu með hvassviðri eða storm þar til síðdegis og því verði varasamt ferðaveður. 

„Þessi vestan strengur hefur verið nokkuð á reiki í spám síðustu daga og er fólk hvatt til að fylgjast með veðurspám. Annað kvöld dregur svo úr vindi og ofankomu,“ segir í hugleiðingunni. 

Veðurvefur mbl.is 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert