Magnús Tumi Guðmundsson, prófessor í jarðeðlisfræði við Háskóla Íslands, tekur undir sjónarmið um að ekki beri að byggja til austurs frá höfuðborgarsvæðinu. Hann segir það einnig óráðlegt að reisa frekari byggð á Völlum í Hafnarfirði.
Hafa beri þó í huga að engin merki séu um kvikusöfnun annars staðar en í Svartsengi.
Aftur á móti sé ekki óhugsandi að eldstöðvakerfi á Reykjanesskaga, meðal annars nærri höfuðborgarsvæðinu, fari af stað.
Hann tekur því undir ábendingar Þorvaldar Þórðarsonar eldfjallafræðings, um að mikilvægt sé að taka skipulag byggðar fastari tökum hvað náttúruvá varðar.
„Við skulum ekki reikna með því að kerfi séu að fara í gang ef við sjáum ekki merki um það. Jarðskjálftavirkni á einhverjum stöðum þýðir ekki að kvika sé farin að safnast þar saman," segir Magnús Tumi og vísar þar til nýlegrar jarðskjálftavirkni í eldstöðvakerfinu sem kennt er við Brennisteinsfjöll.
Þar varð fjöldi skjálfta um helgina, þar af tveir í kringum 3 að stærð, og varð stærsta skjálftans vart í höfuðborginni.
Magnús Tumi bendir á að eldvirknibeltið sem nær frá Reykjanesi til Hengilssvæðis sé alla jafna virkt á um þriggja alda tímabili.
„Við vitum ekki hvernig Reykjanesskaginn þróast. Það er ekkert sem útilokar að virknin færist á milli kerfa," segir hann.
„En það breytir því ekki að það þarf að huga miklu betur að skipulagi á Íslandi. Við höfum í gegnum tíðina ekki hugsað nægjanlega vel að náttúruvá í skipulagi.
Skipulagslögin eru allt of veik þegar kemur að þessu. Þess vegna verður það að vera miklu framar í forgangsröðinni þegar farið er yfir framtíð skipulags,“ segir Magnús Tumi.
Hann telur að taka þurfi meira tillit til hvers konar náttúruvár. Þar undir sé eldgosavá, snjóflóðavá, jökulhlaupavá og sjávarflóðavá svo dæmi séu nefnd. Langtímaverkefnið sé að afstýra vandræðum næstu áratugi og aldir.
Hann segir auðvelt að vera vitur eftir á og engu skili að skammast út í það sem gert hefur verið í skipulagsmálum í fortíðinni. Engu að síður sé það staðreynd að tiltölulega nýlega byggð hús hafi verið á sprungusvæði í Grindavík.
Þá kveðst hann sammála því sem fram kom í máli Þorvaldar, um að ekki sé hyggilegt að byggja til austurs frá Elliðavatni.
Eins sé ekki hyggilegt að byggja frekar á Völlum í Hafnarfirði og að mikilvægt sé að gera viðbragðsáætlun fyrir það svæði þar sem gera má ráð fyrir því að þar muni gjósa á næstu 200 árum.
„Það á ekki að byggja í áttina að eldstöðvakerfum og stöðum þar sem gos geta komið upp og í áttina að þeim stöðum þar sem hraun getur runnið,“ segir Magnús Tumi.
Hann segir að náttúruvá sé ekki það eina sem beri að hafa í huga þegar kemur að því að byggja til austurs frá höfuðborgarsvæðinu. Einnig sé mikilvægt að menn átti sig á þeim hagsmunum sem liggja í því að sækja gott vatn í berggrunninn.
Frekari byggð geti ógnað þeim.
„Þetta er komið inn á vatnsverndarsvæði og þeir hagsmunir sem liggja í því, að passað sé upp á grunnvatnið á Íslandi og suðvesturhorninu, eru gríðarmiklir.“