Ástand ökumanns stöðugt eftir harðan árekstur

Frá vettvangi á Reykjanesbraut í gærkvöld.
Frá vettvangi á Reykjanesbraut í gærkvöld. mbl.is

Ástand ökumanns fólksbifreiðar sem lenti í árekstri við vöruflutningabíl á Reykjanesbraut í gærkvöldi, í grennd við álverið í Straumsvík, er stöðugt að sögn Skúla Jónssonar, aðstoðaryfirlögregluþjóns í Hafnarfirði.

Ökutækin sem komu úr gagnstæðri átt skullu saman og þurfti að beita klippum til að ná ökumanni fólksbifreiðarinnar út úr bílnum. Hann var fluttur á sjúkrahús og segir Skúli við mbl.is að eftir þeim upplýsingum sem hann hafi þá er ástand mannsins stöðugt en hann er alvarlega slasaður.

Hálka var á veginum þegar slysið átti sér stað en loka þurfti Reykjanesbrautinni í báðar áttir í rúmar tvær klukkustundir. Bæði ökutækin voru flutt af vettvangi með dráttarbíl.

Rannsókn er hafin á tildrögum slyssins en rannsóknadeild lögreglunnar, tæknideild og menn frá rannsóknarnefnd samgönguslysa mættu á vettvang.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert