Búsettur erlendis en þarf að greiða skatta á Íslandi

Flugvirkjanum var gert að greiða endurálagningu skatta samkvæmt úrskurðum skattyfirvalda …
Flugvirkjanum var gert að greiða endurálagningu skatta samkvæmt úrskurðum skattyfirvalda með álagi að fjárhæð yfir 15 milljónum króna. mbl.is/Kristinn Magnússon

Íslenska ríkið var á föstudag sýknað í Landsrétti af öllum kröfum íslensks flugvirkja sem höfðaði mál gegn ríkinu vegna úrskurða ríkisskattstjóra og síðar yfirskattanefndar.

Í málinu var deilt um fulla og ótakmarka skattskyldu flugvirkjans á Íslandi á meðan hann starfaði í Sádi-Arabíu á árunum 2014 til 2017. Þá var deilt um ákvarðanir skattyfirvalda í kjölfarið sem snéru að álagningu útsvars, frádrætti vegna dagpeninga og beitingu álags.

Með dómi Landsréttar var dómur héraðsdóms staðfestur um annað en málskostnað sem dómurinn taldi rétt að yrði felldur niður á báðum dómstigum.

Yfir 15 milljón króna endurálagning

Endurálagning samkvæmt úrskurðum skattyfirvalda með álagi nam rúmum 15 milljónum króna.

Flugvirkinn krafðist þess að úrskurðir skattyfirvalda um fulla og ótakmarkaða skattskyldu hans á Íslandi samkvæmt skattalögum yrðu felldir úr gildi.

Til vara krafðist hann að úrskurðirnir yrðu felldir úr gildi að hluta og breytt þannig að fellt yrði niður álagt útsvar á hann vegna tekjuáranna 2014 til 2017, frádráttur yrði heimilaður á móti tekjum vegna fullra dagpeninga samkvæmt reglum um skattmat fyrir hvert tekjuár og að álag yrði fellt niður fyrir tekjuárin.

Flugvél Emirates flugfélagsins yfir Bormio á Ítalíu í desember. Flugvirkinn …
Flugvél Emirates flugfélagsins yfir Bormio á Ítalíu í desember. Flugvirkinn krafðist þess meðal annars til vara að frá tekjum yrði heimilaður fullur frádráttur vegna dagpeninga. AFP

Heimilisfastur á Íslandi?

Héraðsdómur komst að þeirri niðurstöðu að flugvirkinn hafi ekki fellt niður heimilisfesti sína heldur verið heimilisfastur hér á landi á umræddu tímabili og borið fulla og ótakmarkaða skattskyldu. Þá var varakröfum hans hafnað. Var íslenska ríkið því sýknað og flugvirkjanum gert að greiða málskostnað.

Flugvirkinn, sem fluttist af landi brott árið 2011, byggði mál sitt meðal annars á því að við meðferð málsins hefðu skattyfirvöld ekki sinnt rannsóknarskyldu sinni og ekki gætt að andmælarétti hans sem leiða eigi til ógildingar úrskurðar ríkisskattstjóra og úrskurðar yfirskattanefndar. Þá hafi verið rökstuðningsannmarki á úrskurði ríkisskattstjóra sem hafi haft áhrif á andmælarétt hans.

Taldi hann að skattyfirvöld hafi komist að efnislega rangri niðurstöðu í máli hans. Beitt hafi verið röngum tölulið 1. málsgreinar 1. greinar skattalaga og hann talinn heimilisfastur á Íslandi þrátt fyrir hina svokölluðu þriggja ára reglu sem kveður á um að skattskylda á Íslandi falli niður að liðnum þremur árum eftir brottflutningsdag.

Ríkið hafnaði kröfunum

Íslenska ríkið hafnaði öllum sjónarmiðum flugvirkjans og krafðist sýknu í málinu. Sagði ríkið enga annmarka hafa verið á úrskurðum skattyfirvalda í málinu og hafnaði því að brotinn hafi verið andmælaréttur, að mál hans hafi ekki verið nægilega rannsakað eða skort hafi á rökstuðning fyrir ákvörðunum skattyfirvalda. Þau hafi byggt niðurstöðu sína á heildarmati og þau fjölmörgu atriði sem skattyfirvöld hafi litið til standi óhögguð.

Skattyfirvöld hafi verið innan valdheimilda sinna lögum samkvæmt til að ákvarða skattalega heimilisfesti stefnanda og fulla og ótakmarkaða skattskyldu hans á tilteknu tímabili. Framkvæmd skattyfirvalda hafi verið í samræmi við úrskurðaframkvæmd yfirskattanefndar á þessu sviði og dómaframkvæmd Hæstaréttar. Þau hafi komist að efnislega réttri niðurstöðu í máli hans og ekkert geti leitt til ógildingar úrskurða þeirra. Þá hafnaði ríkið sjónarmiðum hans hvað varðar varakröfu hans.

Flugvirkinn flutti lögheimili sitt frá Íslandi til Sameinuðu arabísku furstadæmanna …
Flugvirkinn flutti lögheimili sitt frá Íslandi til Sameinuðu arabísku furstadæmanna og í febrúar 2013 frá Sameinuðu arabísku furstadæmum til Sádi-Arabíu. AFP

Starfaði erlendis frá árinu 2009

Flugvirkinn hefur starfað starfað erlendis en í stefnu kemur fram að hann hafi verið búsettur í Sádi-Arabíu frá árinu 2009. Samkvæmt því sem fram kemur í gögnum málsins mun hafa verið fært í Þjóðskrá í janúar árið 2012 að hann hafi í apríl 2011 flutt lögheimili sitt frá Íslandi til Sameinuðu arabísku furstadæmanna og í febrúar 2013 frá Sameinuðu arabísku furstadæmum til Sádi-Arabíu. Hafi hann þannig verið skráður erlendis frá apríl 2011 til apríl 2017 þegar hann flutti lögheimili sitt aftur til Íslands.

Í niðurstöðu dómsins kemur fram að þrátt fyrir að einstaklingur flytji af landi brott þýði það ekki endilega að heimilisfesti hans falli niður hér á landi. Segir jafnframt að þau tilvik kunni að koma upp þar sem ríkisskattstjóri sé ekki bundinn af því hvernig skráningu lögheimilis í þjóðskrá sé háttað, eða af tilkynningu til Þjóðskrár, sé talið að aðili hafi haft fasta búsetu á öðrum stað en þar er skráð. Hafi þetta ítrekað komið fram í dómaframkvæmd Hæstaréttar.

Lögheimili, föst búseta og bækistöð

Segir dómurinn að lögum samkvæmt teljist lögheimili manns sá staður þar sem hann hefur fasta búsetu og að maður hafi fasta búsetu á þeim stað þar sem hann hefur bækistöð sína, dvelst að jafnaði í tómstundum sínum, hefur heimilismuni sína og svefnstaður hans sé þegar hann er ekki fjarverandi um stundarsakir vegna orlofs, vinnuferða, veikinda eða annarra hliðstæðra atvika.

Þá sé tiltekið að dvöl í gistihúsi, verbúð, vinnubúðum eða öðru húsnæði, sem jafna megi til þess, sé ekki ígildi fastrar búsetu. Dómurinn vekur athygli á því að hugtakið heimilisfesti sé víðtækara en hugtakið lögheimili í skilningi laga og við mat á því hvort einhver hafi rofið heimilisfesti hér á landi sé litið til raunverulegra aðstæðna viðkomandi, m.a. tengsla hans við landið, dvalar hans hér á landi, tekjuöflunar og fjármálaumsvifa.

Frá skrifstofu yfirskattanefndar. Dómurinn hafði ekkert að athuga við úrskurð …
Frá skrifstofu yfirskattanefndar. Dómurinn hafði ekkert að athuga við úrskurð nefndarinnar í kjölfar úrskurðar ríkisskattstjóra. mbl/Arnþór Birkisson

Heildarmat lagt á aðstæður

Dómurinn telur ljóst að í málinu hafi skattyfirvöld lagt heildarmat á aðstæður flugvirkjans hér á landi þegar kom að því að ákvarða heimilisfesti á grundvelli laga og við mat á því hvort hann hefði rofið heimilisfesti sína hér á landi. Horft hefði verið til raunverulegra aðstæðna eins og eignar hans á húsnæði og ökutækjum, fjölskylduaðstæðna, fjármálaumsvifa, bankareikninga, dvalartíma og hvernig frítíma hans hafi verið varið. Þá var lagt mat á gögn sem flugvirkinn lagði fram um aðstæður sínar í Sádi-Arabíu.

Þóttu þær ekki styðja að hann hefði tekið upp búsetu þar í landi. Var þar m.a. horft til þess hvort hann yrði talinn hafa haft yfirráð yfir eða aðgang að húsnæði, í hvaða mæli hann nýtti það húsnæði og horft til dvalartíma, frítíma og atvinnuþátttöku.

Heimilisfesti á Íslandi

Að loknu þessu heildarmati var það ályktun ríkisskattstjóra og yfirskattanefndar að þrátt fyrir flutning lögheimilis hans frá Íslandi í þjóðskrá bentu fram komin gögn ekki til þess að hann hefði flutt lögheimili sitt úr landi og tekið upp fasta búsetu í Sádi-Arabíu.

Var flugvirkinn talinn hafa heimilisfesti hér á landi á því tímabili sem um ræddi og ekki þótti dómnum unnt að fallast á að skattyfirvöld hafi ekki rækt rannsóknarskyldu sína með fullnægjandi hætti eða ekki gætt að andmælarétti flugvirkjans.

Dómurinn benti þá á að samkvæmt dómaframkvæmd heyri það undir þá sem borið hafa fulla og ótakmarkaða skattskyldu hér á landi að færa fram gögn til stuðnings því að þeir hafi brugðið heimilisfesti sinni. Það sé hægt að sýna fram á, til dæmis með skráningu lögheimilis eða hliðstæðri skráningu í öðru ríki og tilhögun skattlagningar í því ríki þegar metið er hvar hin fasta búseta sé. Þau gögn hafi ekki legið fyrir sem styðji að flugvirkinn hafi haft fasta
búsetu í Sádi-Arabíu.

Þá féllst dómurinn ekki á að rökstuðningsannmarki hafi verið á úrskurði ríkisskattstjóra enda hafi flugvirkjanum ekki dulist á hvaða ákvæðum skattalaga ákvörðunin byggði.

Í niðurstöðu dómsins segir að kjarni málsins sé sá að flugvirkinn hafi ekki talist, samkvæmt gögnum málsins, hafa flutt heimili sitt úr landi í skilningi laganna, enda þótt hann hafi tilkynnt sig brottfluttan af landinu.

Kjarni málsins samkvæmt niðurstöðu dómsins er sá að flugvirkinn hafi …
Kjarni málsins samkvæmt niðurstöðu dómsins er sá að flugvirkinn hafi ekki talist, samkvæmt gögnum málsins, hafa flutt heimili sitt úr landi í skilningi laganna, enda þótt hann hafi tilkynnt sig brottfluttan af landinu. mbl.is/Hari

Rannsóknarskylda virt

Dómurinn hafnaði að öðru leyti sjónarmiðum flugvirkjans um að mál hans hafi ekki verið rannsakað og athygli hans ekki vakin á öflun gagna eða vottorða frá stjórnvöldum í Sádi-Arabíu eða öðru hlutaðeigandi ríki um skráningu hans til heimilis þar og að þar sem ekki sé greiddur tekjuskattur í Sádi-Arabíu hafi skattyfirvöld „dregið“ hann til skattalegrar heimilisfesti á Íslandi.

Flugvirkinn taldi það eiga að hafa haft áhrif á úrlausn málsins að honum hafi verið synjað um skráningu lögheimilis hér á landi þar sem hann dvelji meira en sex mánuði utan Íslands.

Afstaða Þjóðskrár átti ekki við rétt tímabil

Dómurinn bendir á að þau gögn sem liggi fyrir í málinu vegna þess beri með sér að tengjast fyrirspurn hans til Þjóðskrár í ágúst 2020 og að engin gögn liggi fyrir um afstöðu Þjóðskrár á því tímabili sem er undir í þeim úrlausnum skattyfirvalda sem málið snýst um.

Auk þess tekur dómurinn fram að lögum samkvæmt fari skráning lögheimilis og aðseturs einstaklinga fram hjá Þjóðskrá samkvæmt þeim reglum sem gilda um skráningu í Þjóðskrá en að vilji löggjafans samkvæmt athugasemdum í frumvarpi hafi verið að ákvæðið eigi ekki að raska lagaákvæðum um úrskurðarvald ríkisskattstjóra um heimilisfesti í skattamálum.

Samkvæmt framangreindu var íslenska ríkið sýknað af öllum kröfum flugvirkjans.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert