Engin flugumferð verður á Keflavíkurflugvelli næstu klukkutímana vegna veðurs. Á vef Isavia má sjá að fyrsta áætlaða koman er klukkan 17.55 og fyrsta áætlaða brottförin er áætluð 19.35.
Guðjón Helgason, upplýsingafulltrúi Isavia, segir í samtali við mbl.is að flugvöllurinn sé nær tómur um þessar mundir.
Segir Guðjón að veðuraðgerðastjórn hafi fundað vegna veðurs og hafi í kjölfarið beint tilmælum að flugfélögunum um að veðrið í dag gæti reynst óhentugt fyrir flug.
Guðjón gat ekki staðfest hvort að verið væri að aflýsa flugferðum eða bara fresta þeim. Hægt er að fylgjast með stöðu flugferða á vefsíðu Isavia.