Einhver röskun var á flugi til og frá Keflavíkurflugvelli í dag vegna veðurs.
Flugfélagið Play flýtti flestum brottförum sínum í morgun og komum frá Evrópu var seinkað síðdegis. Ekki þurfti að aflýsa neinni ferð.
„Þetta var planið sem lagt var upp með í byrjun dags, að flýta brottförum og seinka Evrópuflugi, og það gekk bara eins og í sögu,“ segir Birgir Olgeirsson, upplýsingafulltrúi Play, í samtali við mbl.is.
Varðandi framhaldið segir Birgir raskanirnar í dag ekki hafa neina keðjuverkun. Flugáætlun félagsins er því í góðum málum og eru allar ferðir á áætlun.