Hefði þurft leifturhraða um miðja nótt

Bjarni Benediktsson á fundi stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar í morgun ásamt …
Bjarni Benediktsson á fundi stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar í morgun ásamt aðstoðarmanni sínum Hersi Aroni Ólafssyni. mbl.is/Árni Sæberg

Bjarni Benediktsson, utanríkisráðherra og fyrrverandi fjármálaráðherra, segir það hafa verið útilokað af sinni hálfu að fara yfir sérstakt hæfi sitt gagnvart hverjum og einum þeirra sem tóku þátt í síðara útboðinu á hlut ríkisins í Íslandsbanka.

Þetta kom fram á opnun fundi í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis í morgun þar sem fundarefnið var upplýsingagjöf til ráðherra um stöðu Bankasýslu ríkisins sem sjálfstæðrar stofnunar og um framkvæmd hæfisreglna stjórnsýsluréttar við undirbúning að sölu á hlutnum í Íslandsbanka í mars árið 2022.

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingmaður Pírata (í miðjunni), spurði Bjarna ýmissa …
Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingmaður Pírata (í miðjunni), spurði Bjarna ýmissa spurninga. mbl.is/Árni Sæberg

Unnu alla nóttina

Bjarni sagði að í útboðinu hefði ekki bara fjöldi þeirra sem fengu að taka þátt í því skipt máli heldur einnig hraði aðgerðanna. Eftir að opnað hafði verið fyrir tilboðgjöf eftir lokun markaða hefði staðið yfir vinna við að taka við við tilboðum alla nóttina og greiða úr því hvernig átti að úthluta. Fjármálaráðuneytið hefði ákveðið magnið og verðið en það hefði fallist á tillögu Bankasýslur ríkisins í grófum dráttum um hvernig átti að úthluta til tegunda fjárfesta.

„Það var útilokað af minni hálfu að fara yfir sérstakt hæfi mitt gagnvart hverjum og einum bjóðanda,” sagði Bjarni. „Það hefði þurft að gerast með einhverjum leifturhraða um miðja nótt.”

Hefði mátt standa í lögum 

Bjarni sagði umboðsmann Alþingis ekki hafa í áliti sínu talið sig hafa forsendur til að meta hvort fullyrðing ráðuneytisins um að þetta hefði verið útilokað væri rétt eða ekki.

„Auðvitað hefði verið best ef það hefði staðið í lögum,” sagði Bjarni og bætti við að það lægi í hlutarins eðli að ekki væri hægt að framkvæmda hæfismat gagnvart hverjum og einum með þessu fyrirkomulagi.

Bjarni sagðist hafa samþykkt umrædda sölumeðferð en að Bankasýslan hefði lagt hana til. Skiptar skoðanir hefðu verið á þinginu um þessa framkvæmd en að engar athugasemdir hefðu borist. „Ég tel að þingið hafi lagt blessun sína yfir það að þessi söluaðferð væri notuð,” sagði hann.

Ákvarðanatakan eins í báðum tilvikum 

Ráðherrann sagði ákvarðanatöku sína í fyrra útboðinu á hlut ríkisins í Íslandsbanka og því síðara hafa verið nákvæmlega eins í báðum tilvikum. Hann hefði tekið ákvörðun um hversu mikið magn yrði selt af hlutum og verðið sem ætti að nota í sölunni til viðmiðunar. Hann hefði síðan ákveðið með hvaða hætti endanlega Bankasýslan myndi skipta þeim hlutum sem voru til skiptanna milli tegunda bjóðenda. Ekki hefði verið gerð aðfinnsla varðandi hæfi hans í fyrra útboðinu.

„Erum við hér í einhverri sannleiksleit?“

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingmaður Pírata, nefndi í byrjun fundar að Bjarni hefði lýst sig ósammála ýmsu í áliti umboðsmanns Alþingis þar sem kom fram að honum hefði brostið hæfi í söluferlinu og að niðurstaðan hefði komið Bjarna mjög á óvart. Þórhildur Sunna sagðist ekki finna neitt í sínum gögnum um hvar Bjarna hefði verið ráðlagt að hann þyrfti ekki að gæta að hæfi sínu vegna sölunnar, eins og hann hefði haldið fram. 

Bjarni vísaði þessu á bug og sagði hvergi hafa haldið því fram að hæfisreglur ráðherra ættu ekki við vegna sölunnar. Hann kvaðst einmitt hafa ákveðið að stíga til hliðar sem fjármálaráðherra vegna álits umboðsmanns Alþingis.

„Er ég að svara sem fyrrverandi ráðherra málaflokksins eða erum við hér í einhverri sannleiksleit, eða hvers konar fundur er að eiga sér stað,” sagði hann. „Mér heyrist að í uppsiglingu sé pólitískur fundur sem á að nýta til að velta sér upp úr hlutum sem ég hef þegar axlað ábyrgð á,” hélt hann áfram.

Sömuleiðis sagðist Bjarni nokkrum sinnum á fundinum velta því fyrir sér hvort nefndarmenn hefðu lesið álit umboðsmanns Alþingis vegna málsins en því var vísað á bug af Þórunni Sveinbjarnardóttur, formanni nefndarinnar.  

Bjarni Benediktsson á fundi stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar.
Bjarni Benediktsson á fundi stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar. mbl.is/Árni Sæberg

„Mættur hérna í almenna yfirheyrslu“

Ásthildur Lóa Þórsdóttir, þingmaður Flokks fólksins, spurði Bjarna hvort hann muni framvegis, í nýju ráðuneyti, gæta hæfis þegar hann tekur ákvörðun um skipan embættismanna, ráðuneytisstjóra eða sendiherra og benti í því sambandi á stjórnsýslulög um vanhæfi.

Bjarni kvartaði þá í annað sinn á fundinum yfir dagskrá hans sem hann sagði hafa breyst frá því sem upphaflega var tilkynnt um, en nefndarmenn vísuðu því á bug.

„Svo er maður mættur hérna í almenna yfirheyrslu um hvernig standi til að fylgja hæfisreglum stjórnsýsluréttar,” sagði hann og bætti síðar við: „Ég mun ávallt, hér eftir sem hingað til, gæta þess að hæfisreglum stjórnsýsluréttar sé fylgt í mínum embættisverkum.”

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert