Steinunn Sigurðardóttir, Gunnar Helgason, Rán Flygenring og Haraldur Sigurðsson hlutu fyrir stundu Íslensku bókmenntaverðlaunin 2023 úr hendi Guðna Th. Jóhannessonar forseta Íslands, er þau voru afhent við hátíðlega athöfn á Bessastöðum í 35. sinn. Við sama tækifæri voru Íslensku glæpasagnaverðlaunin Blóðdropinn 2023 afhent í 18. sinn og þau hlaut Eva Björg Ægisdóttir.
Steinunn hlaut verðlaunin í flokki skáldverka fyrir skáldsöguna Ból sem Mál og menning gefur út; Gunnar Helgason og Rán Flygenring myndhöfundur í flokki barna- og ungmennabóka fyrir skáldsöguna Bannað að drepa sem Mál og menning gefur út og Haraldur í flokki fræðibóka og rita almenns efnis fyrir bókina Samfélag eftir máli – Bæjarskipulag á Íslandi og fræðin um hið byggða umhverfi sem Sögufélag gefur út. Eva Björg var verðlaunuð fyrir glæpasöguna Heim fyrir myrkur sem Veröld gefur út.
Íslensku bókmenntaverðlaununum var komið á fót árið 1989 í tilefni af 100 ára afmæli Félags íslenskra bókaútgefenda (Fíbút). Fyrsta árið var verðlaununum ekki skipt í flokka en tilnefndar alls tíu bækur. Árið eftir var tilhögun verðlaunanna breytt þannig að tilnefndar bækur skiptust í tvo flokka, fagurbækur annars vegar og fræðibækur og rit almenns efnis hins vegar. Þannig héldust verðlaunin óbreytt til 2013 að við bætist flokkur barna- og ungmennabóka. Árið 2020 var flokki fagurbóka, eða fagurbókmennta eins og einnig var notað, breytt í flokk skáldverka. Árið 2022 tók Fíbút að sér framkvæmd og fjármögnun Íslensku glæpasagnaverðlaunanna Blóðdropans og fer verðlaunaveiting þeirra og tilnefningar fram samhliða Íslensku bókmenntaverðlaununum. Verðlaunin nema einni milljón króna fyrir hvert verðlaunaverkanna fjögurra og eru kostuð af Fíbút. Nýr verðlaunagripur, Blængur, blásvartur hrafn steyptur í kopar, eftir myndlistarmanninn Matthías Rúnar Sigurðsson, var afhentur verðlaunahöfum Íslensku bókmenntaverðlaunanna í fyrsta sinn í ár.
Fjögurra manna lokadómnefnd valdi vinningsverkin úr hópi 20 bóka sem tilnefndar voru til verðlaunanna í desember á síðasta ári þegar fimm bækur voru tilnefndar í hverjum flokki. Lokadómnefndina skipuðu formenn dómnefndanna fjögurra, þau Hjalti Freyr Magnússon, Kristján Sigurjónsson, Steingerður Steinarsdóttir og Steinunn Valdís Óskarsdóttir ásamt Kristínu Ingu Viðarsdóttur, forsetaskipuðum formanni nefndarinnar.
„Við sem skrifum spyrjum okkur hvers orðin séu í rauninni megnug, og tungumálið – og það í heimi sem verður nú viðsjárverðari með degi hverjum,“ sagði Steinunn Sigurðardóttir þegar hún veitti verðlaununum viðtöku. Í ræðu sinni vakti hún máls á því hve mikilvægt það væri hvernig talað er um hlutina. „Svo það fáist af þeim sem réttust mynd, þar sem afvegaleiðandi orðin bjartsýni og svartsýni koma sem minnst við sögu. Þar sem orðið raunsæi væri leiðarljósið. Okkur ber að gjalda varhug við orðalagi sem er til þess fallið að slá ryki í augun, samanber orðið loftslagsbreytingar. Breyting getur verið til batnaðar – sem væri öfugmæli í þessu samhengi.“
Í umsögn dómnefndar um bók Steinunnar segir: „Ból er efnismikil saga þrátt fyrir að bókin sé ekki ýkja löng. Viðfangsefnið er ástin í öllum sínum fjölbreyttu myndum, en líka missir, tengsl og tengslaleysi, hvort sem er við sjálfa sig eða aðra, umhverfi sitt og náttúru. Ferðalag söguhetjunnar rammar inn frásögnina sem um leið verður innri ferð hennar og uppgjör við lífið.“
Í samtali við Morgunblaðið segir Steinunn: „Ég er hoppandi kát með fréttirnar. Við erum fimm tilnefnd svo það var auðvitað möguleiki – og alls konar harðsnúnir lesendur spáðu mér verðlaununum strax í haust. En hreinskilnislega þá átti ég ekki sérstaklega von á því að Ból fengi þessi verðlaun, ég hugsa ekki þannig, en gleðst jafnframt innilega yfir því. Eðli málsins samkvæmt er bókin sú sama fyrir og eftir viðurkenninguna þannig að maður heldur nú alveg jafnvæginu. En auðvitað er gleðilegt að verkið hafi þennan hljómgrunn hjá dómnefnd sem virðist samsett af lesendum úr ýmsum áttum.“
„Mig langar að byrja á því að þakka þennan stórkostlega heiður sem mér, Rán og bókinni Bannað að drepa er sýndur hér í kvöld. Ég er svo fáránlega glaður, sérstaklega vegna þess að sjaldan eða aldrei hafa jafnmargar framúrskarandi barnabækur komið út á þessu landi,“ sagði Gunnar Helgason þegar hann veitti verðlaununum viðtöku. Í framhaldinu þakkaði hann Kyrylo, ungum dreng frá Úkraínu, fyrir að hafa sagt sér sögu sína sem varð Gunnari innblástur að bók sinni. „Það er ekkert í heiminum mikilvægara en börn. Allt annað kemur í öðru sæti. Og þegar kemur að bókum eru engar bækur mikilvægari en barnabækur.“
Í umsögn dómnefndar um Bannað að drepa segir: „Þrátt fyrir grafalvarlegt söguefnið einkennist sagan af leiftrandi frásagnargleði, sem fjörlegar myndir Ránar Flygenring ýta svo enn frekar undir. Eins og í fyrri bókunum er persónusafnið fjölbreytt og litríkt og atburðarásin er spennandi.“
Í samtali við Morgunblaðið segir Gunnar það hafa komið sér ánægjulega á óvart að vinna aftur, en hann hlaut Íslensku bókmenntaverðlaunin 2015 í sama flokki fyrir skáldsöguna Mamma klikk! „Ég beitti sjálfan mig mikilli væntingastjórnun enda þorði ég ekki að gera mér vonir um að vinna aftur í annað sinn sem ég væri tilnefndur. Þetta reyndist hins vegar vera 100% færanýting,“ segir Gunnar kíminn. Spurður hvort hann geti gert upp á milli verðlaunabókanna tveggja svarar Gunnar því neitandi, en tekur fram að hann voni að sér fari fram sem höfundi. „Þegar ég vann síðast fannst mér það mikilvæg viðurkenning á mér sem höfundi þar sem mér bauðst að ganga inn um ákveðnar dyr. Nú er ég búinn að vera í rithöfundahúsinu í átta ár þar sem ég hef fengið tækifæri til að gera alls konar. Nú er ég kannski kominn upp á aðra hæð í húsinu og stíg betur í fæturna,“ segir Gunnar og áréttar að það sé alltaf gott að fá klapp á bakið og viðurkenningu. „Því við þrífumst öll betur á hrósi en lasti.“
„Það er gleðiefni að bók af þessu tagi fái brautargengi og það verði mögulega til þess að skipulagsmálin fái enn veglegri sess í samfélagsumræðunni,“ sagði Haraldur þegar hann veitti verðlaununum viðtöku. Þá sagði hann að ávallt þyrfti að nálgast verkefni fræðasviðs skipulagsmála með auðmýkt og umburðarlyndi í huga. „Við þurfum umfram allt að vera gagnrýnin á okkar eigin verk, hætta aldrei að hugsa sjálfstætt þrátt fyrir öll snjalltæki nútímans og reyna ávallt að sjá hlutina frá eins mörgum sjónarhornum og mögulegt er.“
Í umsögn dómnefndar um bók Haraldar segir: „Samfélag eftir máli er afar áhugaverð bók um manngert umhverfi okkar, sem skiptir sköpum fyrir samfélagsþróunina, umhverfismál og persónulega líðan okkar allra. Hún á erindi jafnt til fagfólks og almennings.“
Í samtali við Morgunblaðið segir Haraldur að verðlaunin hafi komið sér á óvart. „Maður þorði alveg að vona en ég bjóst ekki við þessu. Sérstaklega af því það voru frambærilegar bækur í þessum flokki. Þá vil ég sérstaklega nefna bókina Með verkum handanna sem er glæsilegt bókverk og byggt á miklum rannsóknum. Svo þetta var mjög ánægjulegt,“ segir Haraldur.
„Það er mjög hvetjandi að fá þessa viðurkenningu og viðbrögðin almennt við bókinni hafa verið framar vonum. Það var reyndar alltaf markmiðið að skrifa bók sem næði til breiðari lesendahóps. Þetta er náttúrulega mikið fræðirit um tiltölulega sérhæft málefni, bæjarskipulag, en markmiðið var að reyna að ná að höfða til fleiri.
„Fyrir mér hefur það verið bæði lærdómsríkt og skrýtið ferli að skrifa bækur. Í Heim fyrir myrkur leyfði ég mér að vera mjög sjálfselsk og skrifaði um það sem mér fannst skemmtilegt og áhugavert, þrátt fyrir að það væri í svolítið óhefðbundnum stíl fyrir glæpasögu,“ sagði Eva Björg Ægisdóttir þegar hún veitti verðlaununum viðtöku. Sagðist hún þar þeirrar skoðunar að glæpasögur „snúist alveg jafn mikið um ást og kærleika og hatur og glæpi, því hvorugt þrífst án hins. Því má eiginlega segja að glæpasögur séu í raun ástarsögur.“
Í umsögn dómnefndar um bók Evu Bjargar segir: „Heim fyrir myrkur er grípandi sálfræðitryllir sem erfitt er að leggja frá sér. Andrúmsloft óhugnaðar og dulúðar er listilega byggt upp og grunsemdum og efa sáð jöfnum höndum í huga lesanda.“
Í samtali við Morgunblaðið segir Eva Björg það sér mikinn heiður að hljóta Blóðdropann. „Mér þykir líka mjög vænt um það að fá viðurkenningu í mínu heimalandi,“ segir Eva Björg sem hlotið hefur mikinn meðbyr erlendis þar sem bækur hennar hafa vakið verðskuldaða athygli. Með verðlaununum fylgir að Heim fyrir myrkur verður framlag Íslands til Glerlykilsins sem eru samnorræn glæpasagnaverðlaun. „Það er því núna verið að vinna að enskri þýðingu bókarinnar til þess að hægt sé að leggja hana fram til Glerlykilsins,“ segir Eva Björg og upplýsir að nú þegar hafi verið gerðir útgáfusamningar þar sem bækur hennar koma út á um 20 tungumálum.
ítarlegri umfjöllun um verðlaunin verður í Morgunblaðinu á morgun, fimmtudag, þar sem rætt er við alla verðlaunahafa og farið yfir sögu verðlaunanna.