Kemur í ljós í dag hvort eitthvað þokist áfram

Sólveig vonast til þess að fundurinn gangi vel í dag.
Sólveig vonast til þess að fundurinn gangi vel í dag. Eggert Jóhannesson

„Ég tel að það muni koma í ljós í dag hvort að eitthvað geti þokast áfram í þessum viðræðum og ég auðvitað vona það,“ segir Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, í samtali við mbl.is.

Breiðfylking stéttarfélaga og Samtök atvinnulífsins (SA) funda í dag klukkan 14 í Karphúsinu með ríkissáttasemjara.

Kjarasamningar allt að 115 þúsund launamanna losna á morgun.

Vonar að SA mæti með samningsvilja

Við fyrstu sýn í lok desembers virtust viðræður ganga vel en svo kom í ljós þegar leið á janúarmánuð að nokkur gjá var á milli deiluaðila.

Úr varð að breiðfylkingin vísaði deilunni formlega til ríkissáttasemjara í síðustu viku og er fundurinn í dag sá fyrsti síðan það gerðist.

„Ég vona að Samtök atvinnulífsins séu tilbúin til þess að nálgast okkur. Ég vona að, í ljósi þess hversu mikilvægt og alvarlegt þetta verkefni er, við getum komist áfram í dag og það komist aftur gangur í viðræður,“ segir Sólveig að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert