Kynferðisbrot gegn börnum á Snapchat ekki nauðgun

Hæstiréttur hefur ekki fallist á að netbrot teljist til nauðgunar.
Hæstiréttur hefur ekki fallist á að netbrot teljist til nauðgunar. Samsett mynd/AFP/Eggert Jóhannesson

Hæstiréttur telur kynferðisbrot þar sem gerandi og brotaþoli eru fjarri hvor öðrum ekki teljast til nauðgunar.

Þetta kemur fram í dómi í máli Brynjars Joen­sen Creed, sem var dæmdur í sjö ára fangelsi fyrir brot gegn fimm grunnskólabörnum. 

Hæstiréttur fellur því frá dómi Landsréttar um að netbrotin teljist til nauðgunar. Dómur hans var ekki styttur.

Höfðu brot Brynjars meðal annars átt sér stað á samfélagsmiðlinum Snapchat og voru allar stúlkurnar 15 ára eða yngri er brotin áttu sér stað. Fékk hann stúlkurnar til að senda sér myndbönd af kynferðislegum toga.

Á málið sér langa sögu og hefur verið deilt um fyrir héraðsdómi, Landsrétti og Hæstarétti hvort brot geti talist til nauðgunar ef gerandi er ekki á staðnum. Hefur málið vakið talsverða athygli og skapað umræðu um réttarstöðu barna í tilfellum stafræns kynferðisofbeldis, sem fari sífellt fjölgandi. 

Gaf börnunum gjafir og var með stigaleik

Héraðsdómur dæmdi Brynjar í sex ára fangelsi fyrir brotin, þar á meðal fyrir þrjár nauðganir. Hin brotin þar sem hann fékk stúlkurnar m.a. til að taka upp og senda kynferðislegt efni af sjálfum sér féllu undir 1. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga þ.e. kynferðisleg áreitni en ekki nauðgun.

Landsréttur þyngdi dóminn yfir Brynjari um eitt ár með dómi sínum í mars í fyrra, en málið var talið fordæmisgefandi þar sem áfrýjun saksóknara fyrir Landsrétti snerist um að telja brotin sem áttu sér stað á netinu til nauðgunar,  í krafti yfirburðastöðu Brynjars vegna aldurs- og þroskamunar og með því að lofa gjöfum. 

Var þar meðal ann­ars um að ræða áfengi, rafrett­ur, níkó­tín­púða, nær­föt og kyn­lífs­hjálp­ar­tæki. Þá setti hann meðal ann­ars upp stiga­leik þar sem stúlk­urn­ar fengu fleiri stig eft­ir því sem mynd­bönd­in voru gróf­ari. 

Nauðgun eða kynferðisleg áreitni?

Í 1. mgr. 194. gr. al­mennra hegn­ing­ar­laga seg­ir annars vegar:

Hver sem hef­ur sam­ræði eða önn­ur kyn­ferðismök við mann án samþykk­is hans ger­ist sek­ur um nauðgun og skal sæta fang­elsi ekki skem­ur en 1 ár og allt að 16 árum. Samþykki telst liggja fyr­ir ef það er tjáð af frjáls­um vilja. Samþykki telst ekki liggja fyr­ir ef beitt er of­beldi, hót­un­um eða ann­ars kon­ar ólög­mætri nauðung. Til of­beld­is telst svipt­ing sjálfræðis með inni­lok­un, lyfj­um eða öðrum sam­bæri­leg­um hætti.

Í 1. mgr. 202. gr. al­mennra hegn­ing­ar­laga seg­ir hins veg­ar:

Önnur kyn­ferðis­leg áreitni en sú sem grein­ir í 1. mgr. varðar fang­elsi allt að [6 árum].
Vildi sak­sókn­ari fella brot manns­ins þar sem hann beitti of­beldi, hót­un og misneyt­ingu til að fá börn­in til að senda sér kyn­ferðis­legt efni í gegn­um netið und­ir 194. grein­ina.

Til er fordæmi fyrir því að gerandi sé dæmdur fyrir brot undir 194. gr. þrátt fyrir að hafa verið fjarstaddur brotum, en í því tilfelli hafði gerandi aftur á móti áður verið viðstaddur í hluta tilfella þar sem hann þvingaði brotaþola til að hafa kynmök við aðra aðila og haft uppi hótanir gegn brotaþola.

Í tilfelli Brynjars er aftur á móti um að ræða kynferðismök sem brotaþoli hafi við sjálf­an sig og með tækj­um und­ir þrýst­ingi eða hót­un­um ger­and­ans.

Aukin netnotkun geri börn berskjölduð

Í dómi Hæstaréttar segir að þó svo að löggjafanum sé skylt að vernda börn gegn hvers konar misnotkun ekki sé „með skýrum hætti ráðið að orðalag 1. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga og 1. mgr. 202. gr. laganna endurspeglaði þá þróun og næði til þeirrar háttsemi að fjarstaddur gerandi fengi annan mann, í tilviki brotaþola, barn, til þess að fróa sjálfu sér, eða eiga kynferðismök við aðra og fá síðar myndskeið sent af því.“ 

Aftur á móti er bent á það í dómnum að sú þróun hafi orðið, með aukinni netnotkun barna og breyttu samskiptamynstri þeirra á milli og við aðra, með notkun samfélagsmiðla og samskiptaforrita geri þau berskjölduð gagnvart kynferðislegri háttsemi sem unnt væri að drýgja á þeim vettvangi. 

Lögregla hefur rannsakaða fjölda annarra meintra brota Brynjars, en hann er grunaður um að hafa brotið gegn á þriðja tug stúlkna, undir fimmtán ára aldri, til viðbótar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert