Vegagerðin lýsir yfir hættustgi fyrir veginn um Súðavíkurhlíð, vegna snjóflóðahættu. Á vef Vegagerðarinnar segir að veginum verði lokað kl. 19.30 sökum þessa.
Töluverð hætta er á snjóflóðum á norðanverðum Vestfjörðum að mati Veðurstofunnar. Með auknum vindi geti svokallaðir vindflekar byggst upp í suðlæg viðhorf og verið óstöðugir.
Snjóflóð féllu á veginn um Súðavíkurhlíð á mánudagskvöld, eins og mbl.is greindi frá.
Bragi Þór Thoroddsen, sveitarstjóri Súðavíkurhrepps, telur að bílar hafi verið beggja vegna flóðsins er það féll.
Um fimmtán til tuttugu manns gistu í fjöldahjálparstöð í íþróttahúsinu í Súðavík í kjölfarið. Um tíu til fimmtán manns til viðbótar var komið fyrir í heimahúsum.
„Það er ekki raunhæft að verja þessa hlíð, það eina raunhæfa í stöðunni er að klára það sem hefur staðið til í 30-40 ár. Það er að gera jarðgöng hérna á milli Skutulsfjarðar og Álftafjarðar,“ sagði Bragi í samtali við mbl.is í gær.