Má ekki lengur leggja sig í versluninni

Kötturinn Diegó, fastagestur í Skeifunni hefur leitað inn í Hagkaup …
Kötturinn Diegó, fastagestur í Skeifunni hefur leitað inn í Hagkaup vegna kulda. Það brýtur í bága við reglur heilbrigðiseftirlitsins. Samsett mynd/Heiðar Kristjánsson

Ótti greip um sig á meðal vina stjörnukattarins Diegó er verslunarstjóri Hagkaup í Skeifunni kvaðst nauðsynlega þurfa að ná tali af eiganda hans í aðdáendahóp Diegós á Facebook í dag. 

„Sem betur fer er hann í himnalagi,“ segir Gunnar Steinn Þórsson, verslunarstjórinn sem um ræðir í samtali við mbl.is. Kveðst hann hafa staðið í ströngu í allan dag við að svara skilaboðum áhyggjufullum aðdáendum Diegós.

„Það eru svo margir sem halda að hann sé heimilislaus villiköttur. Hann er það alls ekki hann er vel viðhaldinn og hið rólegasta dýr, en hann bara má ekki vera inni í búðinni,“ segir Gunnar.

Leiðsöguhundar aðeins leyfilegir

Kveðst Gunnar því einungis hafa viljað setja sig í samband við eiganda kattarins, vegna þess að hann sé farin að fara inn í verslunina sjálfa. Þó ekki sé við Diegó að sakast sé það í bága við reglur heilbrigðiseftirlitsins að hann fari lengra en inn anddyrið. Einu dýrin sem séu leyfileg í matvöruverslunum séu sérstakir leiðsöguhundar. 

„Það er kalt fram í anddyri og maður hefur alveg skilning á því að dýr leiti inn í hlýjuna, en við bara verðum að fara eftir lögum,“ segir Gunnar og bætir við að hann hafi komist í samband við eiganda Diegós sem hafi verið mjög skilningsrík. 

„Kettir gera bara eins og þeir vilja óháð því hvort við mennirnir séum sammála því eða ekki. Hann náttúrulega hefur ekki lesið neinar reglur.“

Diegó finnst gott að leggja sig í verslunum í Skeifunni.
Diegó finnst gott að leggja sig í verslunum í Skeifunni. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Kóngur í sínu ríki í Skeifunni

Segir Gunnar Diegó vera kóng í sínu eigin ríki og ítrekar að hann sé mikill vinur starfsmanna og viðskiptavina Skeifunnar.

Diegó hafi verið fastagestur í að minnsta kosti sjö ár, alla starfstíð Gunnars sem verslunarstjóra í Hagkaup í Skeifunni. 

Það hafi svo sannarlega sýnt sig hve vinamargur Diegó er þegar hann lenti í slysi á síðasta ári og þurfti að fara í aðgerð.

Söfnun fyrir aðgerðinni hafi verið sett af stað og Hagkaup, A4 og Domino's hafi styrkt vin sinn með rausnarlegum framlögum.

„Svo mætti hann bara eftir aðgerðina eins og rokkstjarna. Nýrakaður.“

Segir Gunnar Diegó því enn hjartanlega velkomin í anddyri Hagkaup og að hann hafi síðast séð til hans í morgun þar sem hann fékk að leggja sig í A4.

Stjörnukötturinn Diegó hefur vanið komur sínar í verslanir Hagkaup og …
Stjörnukötturinn Diegó hefur vanið komur sínar í verslanir Hagkaup og A4 í Skeifunni.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka