„Gögn Veðurstofu Íslands eru opin og gjaldfrjáls. Veðurstofan afhendir gögn í samræmi við lög nr. 70/2008 um Veðurstofu Íslands,“ segir Ingvar Kristinsson, framkvæmdastjóri athugana- og upplýsingatæknisviðs Veðurstofu Íslands, í skriflegu svari við fyrirspurn mbl.is í kjölfar viðtals við Harald Ólafsson, prófessor í veðurfræði við HÍ, sem birtist hér á vefnum á sunnudaginn.
Segir Ingvar stofnunina afla gagna með mælakerfi sínu sem samanstandi í meginatriðum af veðurmælingum, jarðskjálftamælingum, jarðhniksmælingum og vatnshæðarmælingum.
Hafi veðurstofan engar ástæður til að halda gögnum þessum frá hagaðilum, hvort heldur þar séu á ferð vísindamenn háskóla, aðilar á markaði sem vilji nýta sér gögnin til eigin þjónustu eða samfélagið í heild.
„Það er hagur samfélagsins að sem flestir hafi greiðan og góðan aðgang að gögnunum og geti nýtt á hvern þann hátt sem henta þykir,“ skrifar Ingvar og kemur því næst að kjarna málsins sem Haraldur – og raunar fleiri – hafa rætt við mbl.is.
„Veðurstofan getur ekki lengur hleypt neinum beint inn í gagnagrunna sína til að sækja gögn. Sú tíð er liðin. Skylda Veðurstofunnar til að tryggja varðveislu þessara gagna kemur einfaldlega í veg fyrir það nú á tímum netárása, gagnagíslatöku og annarrar slíkrar ógnar. Þá er stofnunin vottuð samkvæmt ISO 27001 þar sem er gerð ríka krafa um stjórnun upplýsingaöryggis. Í þessu liggur vandi Veðurstofunnar,“ skrifar framkvæmdastjórinn.
Ekki hafi tekist að uppfylla öryggiskröfur hvað varðar beint aðgengi að gögnum fyrir þá sem þess óska og hafi veðurstofan því þurft að reiða sig á sérlausnir fyrir hvern og einn notanda. Veðurstofan er lögð af stað í þá vegferð að gera gögnin aðgengileg með vefþjónustum og er vísi að því að finna á api.vedur.is.“
Jafnframt vinni veðurstofan að því að veita opið aðgengi að mikilvægum jarðvísindagögnum og þjónustum frá Íslandi í gegnum samevrópsku gagnaþjónustuna EPOS. Verkefnið EPOS ÍSLAND hlaut árið 2021 sess á íslenska vegvísinum um uppbygginu rannsóknainnviða á sviði jarðvísinda.
Verkefni þetta leiði veðurstofan en samstarfsaðilar á þeim vettvangi séu Háskóli Íslands, Landmælingar Íslands,Náttúrufræðistofnun Íslands og ÍSOR, Íslenskar orkurannsóknir.
„Veðurstofan hefur eftir bestu getu reynt að koma á móts við alla aðila sem þurfa á gögnum að halda með eins góðu aðgengi og hægt er,“ skrifar Ingvar enn fremur. Sumir komi í heimsókn og nýti fyrirspurnartól í gagnagrunna eins og starfsfólk Veðurstofunnar geri til að nálgast þau gögn sem þörf sé á.
„Aðrir hafa fengið skilgreindan aðgang til að sækja sér sín gögn og er þá þeim aðgangi stýrt. Enn aðrir senda beiðni um gögn og fá þau afhent eins fljótt og auðið er. Loks eru dæmi um það að Veðurstofan hafi sett upp þjónustur fyrir einstaka aðila sem þá fá gögn eins og skilgreint er. Hver sem er getur sótt um slíkan aðgang og beiðnir hafa verið afgreiddar eftir bestu getu,“ skrifar Ingvar af aðgangsmálum stofunnar.
Sem dæmi um samvinnu þar sem gögnum sé deilt nefnir hann mikið og gott samstarf Veðurstofu Íslands og Jarðvísindastofnunar HÍ undanfarið í tengslum við jarðhræringar á Reykjanesskaga og nefnir vefslóðirnar api.vedur.is og spakort.vedur.is. Lætur hann þess enn fremur getið að í samráðsgátt stjórnvalda sé nú frumvarp til umsagnar til breytinga á lögum um endurnot opinberra upplýsinga en þau eru númer 45/2018.
„Markmið þess er að auka möguleika fyrirtækja, einkaaðila og almennings til hagnýtingar á upplýsingum frá hinu opinbera og stuðla að hagvexti og nýsköpun til aukinnar samkeppnishæfni og hagsbóta fyrirsamfélagið í heild,“ skrifar Ingvar.
Helstu breytingar á núgildandi lögum sem þar séu lagðar til séu þær að mjög verðmæt gagnasett skuli vera gjaldfrjáls, á véllæsilegu sniði, veitt um viðeigandi forritaskil og með magnniðurhali, þar sem það eigi við.
„Með frumvarpinu eru uppfylltar skyldur íslenska ríkisins til innleiðingar á tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2019/1024 frá 20. júní 2019 um opin gögn og endurnotkun upplýsinga frá hinu opinbera. Tilskipuninni er sérstaklega ætlað að auka framboð verðmætra opinberra gagna til endurnota til að takast á við samfélagslegar áskoranir,“ skrifar hann.
Samkvæmt viðauka við tilskipunina séu sex þemabundnir flokkar mjög verðmætra gagnasafna skilgreindir og falli veðurfræðigögn sem Veðurstofan safnar meðal annars þar undir.
„Veðurstofan mun leggja sig fram við að uppfylla skilyrði þessara laga innan þess tímaramma sem þar verður settur. Veðurstofan mun kappkosta að mæta auknum kröfum um aðgengi að gögnum til að styðja ákvarðanatöku og rannsóknir innan samfélagsins. Með nýrri tækni og aukinni getu til að vakta náttúru landsins hefur það gagnamagn sem safnast margfaldast á síðustu árum,“ segir í samantekt Ingvars.
Stofnanir um allan heim sem sinni gagnaöflun til að styðja margs konar verkefni innan samfélaga standi allar frammi fyrir því verkefni að hýsa og veita aðgengi að gögnunum. „Í sumum tilfellum er um það mikið magn að ræða að engin ein stofnun ræður við slíkt og því er alþjóðleg samvinna á þessu sviði mjög mikilvæg, ekki síst hvað varðar upplýsingar um loftslagsbreytingar,“ skrifar Ingvar Kristinsson, framkvæmdastjóri athugana- og upplýsingatæknisviðs Veðurstofu Íslands, að lokum.