Hermann Nökkvi Gunnarsson
Um tíu flugferðir hjá flugfélaginu Play hafa orðið fyrir röskunum í dag vegna veðurs. Ekki hefur þurft að aflýsa neinum flugferðum.
Þetta segir Birgir Olgeirsson, upplýsingafulltrúi Play, í samtali við mbl.is.
Eins og mbl.is greindi frá fyrr í dag þá eru engar komur eða brottfarir áætlaðar á Keflavíkurflugvelli í dag fyrr en klukkan 17.55.
Birgir segir að morgunbrottfarir Play til Evrópu hafi verið á tíma en að brottfarir til svokallaðra sólarlanda hafi verið flýtt um klukkutíma.
Brottförum til Bandaríkjanna var þar að auki einnig flýtt, en áttu þær flugferðir að fara klukkan 15 en fóru þess í stað snemma í morgun.
Þremur komuferðum var seinkað og eru það flugferðir frá Evrópu, en komur verða í kvöld.