Svartabylur í Stykkishólmi

Talsverð ófærð var í bænum seinnipartinn í dag, nýr bíll …
Talsverð ófærð var í bænum seinnipartinn í dag, nýr bíll sveitarinnar kom að góðum notum. Ljósmynd/Björgunarsveitin Berserkir Stykkishólmi

Bílar sátu fastir um allan bæ í Stykkishólmi er svartabylur gekk yfir bæinn síðdegis í dag. Veðrið gekk þó hratt yfir og mestu vandræðin voru aðeins milli klukkan 16 og 17. 

Einar Strand, formaður svæðisstjórnar hjá Landsbjörgu og slökkviliðsstjóri í Stykkishólmi segir að mikill éljabakki hafi gengið yfir með miklu hvassviðri. Þá hafi verið mikil lausamjöll á svæðinu. 

Björgunarsveitir voru kallaðar út, en vel á annan tug bifreiða sátu fastar víða um bæinn. 

Menn þurfa að anda með nefinu

„Maður sá ekki á milli augnanna á sér, það var svaka bylur í smá tíma. Þetta snýst bara um að menn þurfa að anda með nefinu. Best er að bíða þangað til maður sér hvert maður er að fara, áður en maður fattar að maður er á kafi í skafli,“ segir Einar.

Engin alvarleg slys urðu, hvorki á fólki né bifreiðum, og gekk vel að losa allar þær bifreiðar sem sátu fastar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert