Fjöldi ferðamanna urðu strandaglópar á leið sinni um Gullna hringinn þegar veðurhvellurinn skall á suðurlandið um miðjan dag. Hátt í tuttugu bílar sátu fastir í vegkantinum frá Gullfossi að Laugarvatni.
Halldór Kr. Jónsson leiðsögumaður er meðal þeirra sem fór Gullna hringinn í dag á breyttum jeppa og vel búnum.
Með Halldóri í för voru ferðamenn sem hugðust einungis virða fyrir sér Gullna hringinn en fengu jafnframt að upplifa alvöru íslenskan vetrardag.
Halldór segir veðrið hafa verið verst milli klukkan hálf þrjú og hálf fimm á svæðinu. Voru þá margir sem leituðu skjóls á Gullfosskaffi enda lítið af Gullfossi að sjá í bylnum þó fossinn sé stór.
Á leið frá Gullfossi að Laugarvatni kveðst Halldór hafa keyrt fram hjá hátt í tuttugu bílum sem sem höfðu farið útaf, sumir langt út fyrir vegkantinn.
„Þetta voru allskonar bílar, óbreyttir Land Cruiserar, Campervan-bílar, Dacia Duster og fleiri tegundir, langt fyrir utan veginn,“ segir Halldór sem kveðst hafa verið hissa þegar hann sá hversu illa búnir margir voru.