Auknar líkur á gosi: Fyrirvarinn gæti orðið minni

Hraunið við Sundhnúkagígaröðina norðan Grindavíkur.
Hraunið við Sundhnúkagígaröðina norðan Grindavíkur. mbl.is/Kristinn Magnússon

Um 6,5 milljónir rúmmetra af kviku hafa nú flætt inn í kvikuhólfið sem kennt er við Svartsengi.

Þetta sýna líkön sem byggja á GPS-gögnum sem farið var yfir á fundi vísindamanna Veðurstofu og Háskóla Íslands í morgun.

Út frá þessu er talið líklegt að kvikumagnið nái svipuðu rúmmáli og fyrir eldgosið 14. janúar á næstu tveimur vikum og jafnvel dögum.

Líkurnar á kvikuhlaupi og eldgosi hafa því aukist.

Níutíu mínútur og svo fimm klukkustundir

Tekið er fram að ekki sé víst að fyrirvarinn verði eins langur og í síðasta eldgosi. Þá var um fimm klukkustunda fyrirvari frá því jarðskjálftahrina byrjaði þangað til að eldgos hófst rétt sunnan Hagafells.

Fyrirvari gossins þar áður, þann 18. desember, var um níutíu mínútur. Það gos kom upp um það bil við miðjan kvikuganginn.

„Við endurtekin kvikuhlaup er líklegt að leiðin fyrir kvikuna verði greiðari og því fylgir minni jarðskjálftavirkni,“ segir í tilkynningu frá Veðurstofunni.

Kvikuhlaupum fylgi þó alltaf aukin smáskjálftavirkni og því sé líklegast að fyrirvari verði í það minnsta ein klukkustund í aðdraganda eldgoss.

Þá er talið langlíklegast að eldgosið muni rata í farveg kvikugangsins sem myndaðist 10. nóvember síðastliðinn.

Tæplega 200 jarðskjálftar síðustu sjö daga

Jarðskjálftavirkni er sögð hafa verið svipuð síðustu viku.

„Síðustu sjö daga hafa tæplega 200 jarðskjálftar mælst yfir kvikuganginum. Flestir skjálftanna voru smáskjálftar, undir 1,0 að stærð, á 2 til 5 km dýpi á svæðinu frá Stóra-Skógfelli í norðri og skammt suður fyrir Hagafell.“

Stærsti jarðskjálftinn mældist 1,8 að stærð og varð tæpum kílómetra sunnan við Hagafell.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert