„Ég held að það hafi verið mjög jákvætt að þetta mál fór alla leið upp í Hæstarétt,“ segir Kolbrún Benediktsdóttir varahéraðssaksóknari í samtali við mbl.is og á þar við mál Brynjars Joensens Creed sem Hæstiréttur hefur nú dæmt til sjö ára fangelsisvistar fyrir kynferðisbrot gegn fimm stúlkum á grunnskólaaldri.
Staðfesti Hæstiréttur þar með dóm Landsréttar hvað refsinguna snerti sem hafði þyngt sex ára dóm héraðsdóms um eitt ár. Eins og mbl.is greindi frá í gær féllst Hæstiréttur hins vegar ekki á að um nauðgun væri að ræða þegar gerandi og brotaþoli eru staddir fjarri hvor öðrum en það átti við um þrjú af fimm fórnarlömbum.
Í dómi sínum tekur Hæstiréttur fram að sú þróun sem orðið hafi með aukinni netnotkun barna og breyttu samskiptamynstri þeirra í milli og við aðra með notkun samskiptaforrita og samfélagsmiðla geri þau berskjölduð gagnvart kynferðislegri háttsemi sem unnt er að drýgja á þessum vettvangi. Segir svo í forsendum dómsins:
„Þrátt fyrir þessa þróun og ótvíræða skyldu löggjafans til að vernda börn gegn hvers konar misnotkun, þar á meðal kynferðislegru, verður ekki með skýrum hætti ráðið að orðalag 1. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga [um samþykki til kynferðismaka] og 1. mgr. 202. gr. þeirra [um kynferðismök við barn yngra en 15 ára] endurspegli þá þróun og nái til þeirrar háttsemi að fjarstaddur gerandi fái annan mann, í tilviki brotaþola, barn, til þess að fróa sjálfu sér eða eiga kynferðismök við aðra og fái síðar myndskeið sent af því.“
Var Kolbrún innt álits á þeirri niðurstöðu Hæstaréttar að ekki hefði verið um nauðgun að ræða, þvert á álit Landsréttar í dómi sínum frá því í mars í fyrra, og svarar hún því til að í málinu hafi ákæruvaldið látið reyna á skilgreiningu og það hve víðtæk verknaðarlýsing nauðgunarákvæðis hegningarlaganna væri og og hvar mörk hennar lægju.
„Niðurstaðan er kannski ekki alveg það sem ákæruvaldið lagði upp með en segja má að þarna hafi einkum reynt á tvennt, annars vegar hvort það að láta brotaþola framkvæma á sjálfum sér eða með einhverjum öðrum það sem við köllum önnur kynferðismök og hins vegar hvaða þýðingu það hefði að gerandi væri ekki staddur í sama rými og þolandi,“ segir saksóknari.
Nefnir hún dómafordæmi frá 2010 sem ákæruvaldið vísar til í málinu þar sem ákærði hafi verið sakfelldur fyrir nauðgun samkvæmt 1. málsgrein 194. greinar hegningarlaga í fjölda tilvika, meðal annars þar sem hann neyddi brotaþola til þess að hafa samræði við aðra karlmenn sem hann tók ekki þátt í sjálfur en var áhorfandi að.
„Fallist var á að það gæti fallið undir hugtakið nauðgun en í þessu tilviki [máli Brynjars] erum við með eitt tilvik þar sem börn eru látin gera hluti við hvort annað og svo tvö tilvik þar sem börn eru látin gera hluti við sjálf sig. Mér sýnist þegar maður les dóm Hæstaréttar núna í máli Brynjars að málið falli fyrst og fremst á því að ákærði hafi ekki verið staddur á sama stað og brotaþolarnir,“ segir Kolbrún.
Enn fremur segir hún nokkurn tíma hafa liðið frá því Brynjar fékk brotaþola til að viðhafa háttsemi og þar til myndskeið voru send sem hafi, samkvæmt rökstuðningi Hæstaréttar, gert það að verkum að Brynjar hafi ekki getað stjórnað því hvenær eða með hvaða hætti kynferðisleg háttsemi væri viðhöfð og að sama skapi ekki knúið fram atburðarásina og stjórnað framvindu hennar á sama hátt og væri hann staddur í sama rými eða sæti fyrir framan vefmyndavél í rauntíma.
„Þar af leiðandi telur Hæstiréttur ekki hægt að fella þessa háttsemi undir önnur kynferðismök [og þar með nauðgun í skilningi hegningarlaga]. Hvort hægt verði að lesa það út úr þessum dómi að sú háttsemi að láta brotaþola viðhafa einhverja háttsemi á sjálfum sér með ákærða í sama rými hefði gengið upp [og getað kallast nauðgun], það er örlítið óljóst, en hitt er kannski stóra málið að Hæstiréttur telur ekki – eins og málum var háttað þarna – að um nauðgun hafi verið að ræða þar sem ákærði var ekki staddur í sama rými,“ segir Kolbrún.
Spyr hún í framhaldinu hvort málum hefði þá verið öðruvísi farið ef um annars konar verknað hefði verið að ræða, til dæmis hótun ákærða um líkamlegt ofbeldi ef brotaþoli léti hjá líða að framkvæma umbeðna háttsemi. „Eða er Hæstiréttur bara að segja yfir höfuð að það gangi ekki upp að þetta sé nauðgun þegar ákærði og brotaþoli eru ekki í sama rými?“
Þetta sé eitthvað sem taka þurfi til skoðunar og þá hvernig breyta megi löggjöfinni til að slík háttsemi, sem um ræðir í þessu máli, falli undir nauðgunarákvæði hegningarlaga.
Telur Kolbrún þá að löggjafinn ætti að beita sér fyrir slíkri breytingu á lögunum?
„Já, ég held að það sé alveg þess virði að leggjast aðeins yfir þetta vegna þess að Hæstiréttur fer líka yfir sambærileg ákvæði í Svíþjóð og Noregi og nefnir að þau ákvæði séu ítarlegri þegar kemur að þessum brotum. Ef við tökum norska ákvæðið sem dæmi er þar sérstaklega tiltekið að það falli líka undir önnur kynferðismök þegar brotaþoli er látinn framkvæma einhverjar athafnir á sjálfum sér. Það er alveg skýrt í norsku lögunum að slíkt geti talist nauðgun,“ segir saksóknari.
Norska og sænska ákvæðið taki hins vegar ekki beinlínis til þess hvort þetta geti átt við þegar ákærði er fjarstaddur svo það atriði þurfi að taka til sérstakrar skoðunar að mati Kolbrúnar, hvað það raunverulega sé sem Hæstiréttur vísi til.
„Hæstiréttur nefnir sérstaklega að ákærði hafi ekki getað haft eins bein áhrif á framganginn og ef hann hefði verið staddur í sama rými eða í beinu streymi gegnum vefmyndavél. Þá er kannski hægt að lesa það út úr þessu að ef ákærði hefði verið í beinu streymi við brotaþola og fengið þá til að framkvæma þessa hluti hefði það hugsanlega verið nægilegt,“ segir hún enn fremur.
Telur Kolbrún að lokum að í ljósi niðurstöðu Hæstaréttar sé tilefni til að skoða hvort, og þá með hvaða hætti, þyrfti að breyta löggjöfinni til þess að börn njóti refsiverndar.
„Þetta er það sem við erum að sjá í meira mæli, gerendur eru að nýta sér netið meira og meira til þess að brjóta á börnum og við þurfum að vera tilbúin til að grípa það,“ segir Kolbrún Benediktsdóttir varahéraðssaksóknari að lokum.