Ekkert kynnt og skortur á lýðræði

Sigrún Tryggvadóttir segir ekkert samráð haft við íbúa miðborgar um …
Sigrún Tryggvadóttir segir ekkert samráð haft við íbúa miðborgar um breytingar á bílastæðum mbl.is/Ómar Óskarsson

Sigrún Tryggvadóttir, formaður íbúasamtaka miðborgar Reykjavíkur, segist hafa orðið gáttuð þegar hún heyrði af máli Önnu Ringsted, sem mbl.is greindi frá í dag.

Anna og fleiri íbúar miðborgarinnar eru í þeirri sérkennilegu stöðu að vera sektuð fyrir notkun innkeyrslu sinnar en jafnframt synjað um íbúakort fyrir bílastæði.

„Köllum eftir lýðræðinu“

Sigrún segist hafa setið fund íbúaráðs miðborgar og Hlíða í síðustu viku og hafi þessi breyting bílastæðamála þar hvergi verið kynnt.

„Aftur köllum við eftir lýðræðinu. Ég er búin að senda á íbúaráðið að taka þetta fyrir á fundi til að óska eftir útskýringum og ástæðu þess að íbúum séu ekki kynntar þessar breytingar,“ segir Sigrún.

Hún segir íbúasamtök miðborgarinnar hafa gagnrýnt stækkun gjaldskyldra svæða og rýmingu tíma gjaldskyldu sem komið var á í júlí. Hún segir að þá hafi heldur engin kynning verið haldin né heldur tækifæri borgarbúa til þess að koma athugasemdum eða breytingartillögum.

Þrengt að lífsgæðum íbúa

„Við greinum mikið mótlæti gegn bílnum af hálfu borgaryfirvalda. Það er þrengt mjög að lífsgæðum þess fólks sem býr í miðbænum og hefur jafnvel búið þar áratugum saman. Anna Ringsted er búin að eiga þetta bílastæði í 40 ár og það eru mýmörg önnur svona dæmi. Samt sagðist nú nýi borgarstjórinn í viðtali við Morgunblaðið hafa skilning á því að fólk þurfi að reka bíl.“

Sigrún segir íbúasamtökin muni funda um þetta mál snemma í næstu viku og gerir ráð fyrir því að þau sendi yfirlýsingu frá sér um málið í kjölfarið.

Ekki náðist í bílastæðasjóð Reykjavíkur við vinnslu fréttarinnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert