Líklegt að ný aðferð dragi úr íbúafjölda landsins

Hagstofan vinnur nú að nýrri aðferð við mat á fjölda …
Hagstofan vinnur nú að nýrri aðferð við mat á fjölda íbúa landsins. Líklegt er að sú aðferð muni draga úr fjölda skráðra íbúa. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Líklegt er að eitthvað muni draga úr fjölda skráðra íbúa hér á landi þegar Hagstofan birtir nýjar tölur um íbúafjölda, en byggt er á nýrri og nákvæmari aðferð en áður hefur verið stuðst við.

Þróun þessarar aðferðar er nú í vinnslu hjá Hagstofunni og munu tölurnar koma í ljós í mars þegar stofnunin birtir áramótastöðu sín um íbúafjölda Íslands. Verður með nýju aðferðinni notast við gögn frá Skattinum og úr skólakerfum til að sjá hvort íbúar eru enn raunverulega búsettir hér. 

Ofmat um 10 þúsund íbúa árið 2021

Í nóvember 2022 upplýsti Hagstofan að mannfjöldi hér á landi hefði verið ofmetinn um 10 þúsund manns miðað við skráningu Þjóðskrár og var fjöldi lands­manna í mann­tali sem tekið var í janú­ar 2021 því upp­færður sam­kvæmt því.

Hagstofan hefur síðan þá unnið að endurbættum aðferðum til að sýna sem réttastan fjölda landsmanna. Þorsteinn Þorsteinsson, ritstjóri Hagstofunnar, segir í samtali við mbl.is að áherslan sé á að fá sem réttastar upplýsingar um fjölda þeirra sem hér búa hverju sinni, enda séu slíkar tölur mjög mikilvægar við ákvarðanatöku ýmisskonar í samfélaginu.

Hann segir að hingað til hafi Hagstofan unnið með tölur frá Þjóðskrá, en svo yfirfarið þær tölur aðeins betur út frá andlátum og nokkrum öðrum breytum. Því hafi tölur Hagstofunnar jafnan verið aðeins lægri en Þjóðskrár.

Skráir sig við komu til landsins, en ekki þegar það flytur burt

Þetta ofmat helgaðist aðallega af því að meðan sterkur hvati og oft nauðsyn er fyrir fólk að skrá sig við komu til landsins, þá er mun minni vilji til að skrá sig úr landinu. Þorsteinn segir að því hafi verið sett af stað vinna þar sem reynt er að ná utan um snertingar einstaklinga við helstu kerfi hér á landi með það að markmiði að meta hvort viðkomandi séu enn búsettir hér á landi eða farnir af landi brott.

„Við leitum að lífsmörkum hjá Skattinum og í kringum skólakerfi, t.d. hvort að börn séu í leikskóla,“ segir hann. Ef engar tengingar séu hjá fólki hjá Skattinum í sex mánuði og í sex til tólf mánuði í tengslum við skólakerfið segir Þorsteinn að það sé metið svo hjá Hagstofunni að viðkomandi búi ekki í landinu. „Það er fullt af fólki sem kemur inn í landið, skráir sig inn, en skráir sig svo ekki út þegar það fer af landi brott,“ segir hann.

Spurður hvort að mögulegt sé fyrir einhvern að búa hér á landi en ekki vera með neina snertifleti við viðkomandi kerfi segir Þorsteinn að ekki sé hægt að útiloka það, en að það sé hins vegar mjög ólíklegt. Til þess að svo sé þurfi fólk í raun að vera í felum.

Hefur líklega áhrif til lækkunar

Með þessu nýja kerfi segir Þorsteinn að meðal annars sé hægt að fá nákvæmari breytingar á fjölda fólks sem hingað komi í skamman tíma, hvort sem það sé vegna vinnu eða náms.

Spurður um áhrif þessarar nýju aðferðar á skráðan íbúafjölda segir Þorsteinn að þau verði líklega í ætt við það sem varð með 2021 manntalið, þ.e. til lækkunar, en enn sé þó of snemmt að segja eitthvað um hver sá fjöldi verður.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert