Snjó hefur kyngt niður í nótt og töluvert er um ófærð á þjóðveginum. Vegirnir um Holtavörðuheiði, Mosfellsheiði og Lyngdalsheiði eru lokaðir en unnið er að snjómokstri.
Þá er lokað á leiðinni milli Kirkjubæjarklausturs og Skaftafells og sömuleiðis unnið að snjómokstri þar.
Hættustig er á veginum um Súðavíkuhlíð vegna snjóflóðahættu og er hann lokaður.
Vetrarfærð er um allt land. Hálka, hálkublettir eða snjóþekja eru á nokkrum leiðum á Suðvesturlandi og þungfært er á Garðskagavegi sunnan Sandgerðis.
Hálka eða snjóþekja er á helstu vegum á Suðurlandi en víða snjóþekja eða þæfingsfærð í uppsveitum. Þungfært er á Biskupstungnabraut milli Múla og Gullfoss.
Snjóþekja eða hálka er víða á Vesturlandi en þungfært á veginum um Bröttubrekku. Ófært er á Fróðárheiði og í Álftafirði.
Hálka og hálkublettir eru á flestum leiðum á Norðausturlandi en eitthvað um snjóþekju. Ófært er á Dettifossvegi.
Áfram eru þungatakmarkanir á brúnni yfir Skjálfandafljót á Norðausturvegi (85) fyrir vörubifreiðar yfir 3.500 kg. að heildarþyngd og fólksflutningabifreiðar/hópbifreiðar ætlaðar til að flytja fleiri en 8 farþega.
Hálka eða hálkublettir eru á flestum leiðum á Austurlandi en eitthvað er um snjóþekju. Ófært er á Öxi og Breiðdalsheiði.
Hálka eða snjóþekja er á flestum leiðum á Suðausturlandi.
Sést hefur til hreindýra við veg í nágrenni við Jökulsárlón, í Álftafirði, Hamarsfirði og Berufirði og eru vegfarendur beðnir að sýna aðgát.