Dóra Björt Guðjónsdóttir, formaður umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkur, segir skýrt að umrædd innkeyrsla sé ekki skilgreind sem bílastæði í deiliskipulagi. Þá vísar hún til innkeyrslu við heimili Önnu Ringsted á Frakkastíg sem mbl.is greindi frá fyrr í dag.
„Samkvæmt umferðarlögum er þá heimilt að sekta á þeim stað. Þú átt ekki að leggja þar sem ekki er gert ráð fyrir að ökutæki séu. Það er alveg ljóst á grasi, göngustígum og öðrum sambærilegum svæðum.“
Hún segir heimildina skýra í þeim efnum en eftirlit hafi lengi vel verið lítið. Nú sé það komið á forræði bílastæðasjóðs að framfylgja.
Dóra Björt undrast þann ómöguleika sem dóttir Önnu Ringsted lýsir, að ekki hafi fengist íbúakort þar sem Anna hafi átt innkeyrslu á lóð.
„Ég tel það vera atriði sem stenst ekki alveg skoðun. Reglurnar eiga að vera alveg skýrar í því að ef fólk er ekki með stæði á lóð þá á það rétt á einu íbúakorti á íbúð. Það er meira að segja ákveðinn sveigjanleiki í kerfinu, þar sem fólk sem er með stæði á lóð sem erfitt er að nýta, það er til dæmis of þröngt, þá hefur fólk fengið íbúakort gegn því að það sé ekki að nýta þessi stæði á lóð. Þá hefur gjarnan verið merkt stæði í borgarlandinu á móti innkeyrslu.“
Dóra Björt segir að oft sé byrjað að sekta í kjölfar kvartana frá nágrönnum.
„Ástæða þess gæti verið að þegar lagt er inn á lóð að þá er verið að aka yfir gangstétt sem getur vegið að umferðaröryggi barna sem eiga leið þar um. Innkeyrslur valda því þá líka að ekki er hægt að leggja í stæði í borgarlandinu, því þá er lagt fyrir innkeyrslu einhvers.“
Dóra Björt bætir við:
„Þegar farið var að fylgja eftir að bannað væri að leggja í þessi stæði, þá var farið að dreifa aðvörunum til að tilkynna fólki að það væri að leggja í stæði sem væru í raun ekki stæði. Þetta var gert víða en hefur greinilega ekki verið nægilega markvisst. Við teljum að bæta megi úr því.“
Dóra Björt er spurð að því hvort ekki gæti ákveðins lýðræðishalla hjá borginni þegar ekki er haft samráð við borgarana um að ákveða gjaldskyldu.
„Við erum að stíga fleiri skref hjá borginni til þess að auka samráð við borgaranna og hlusta á íbúa samkvæmt lýðræðisstefnu Reykjavíkurborgar. Hins vegar varðandi gjaldskylduna þá er talið að hún fari eftir mjög skýrum reglum hvernig það eigi að vera. Hún byggist öðru fremur á talningum. Ef það eru aldrei laus svæði á ákveðnu svæði þá er það talin ástæða til þess að hækka gjaldið.
Þetta byggir því á mjög skýru verklagi og ég er ekki mikið fyrir sýndarsamráð. Ef við værum að fara í samráð um hvort stækka eigi gjaldskyldusvæðið eða ekki, byggða á mjög gagnsæjum verklagsreglum þá erum við ekki að fara í samráð til að fá neitt frá íbúum. Þá er ekki verið að taka afstöðu til já eða nei spurningar. Við svörum því til að við erum með þetta verklag og ætlum að fylgja því eftir. Punktur. En ef breyta á þessu verklagi, þá er full ástæða til þess að tala við íbúa.“
Dóra Björt er spurð um sanngirnisrök þar sem sum íbúðahverfi eru tekin út fyrir sviga og skellt á þau gjaldskyldu. Ætti ekki eitt yfir alla að ganga?
„Ef stóra hugsjónin í þessu máli væri sú að greiða eigi fyrir stæði þá eru stæði sannarlega dýr allstaðar í borgarlandinu og greiða ætti fyrir það alls staðar. Þannig er málum til dæmis háttað í Ósló þar sem víðast hvar þarf að greiða fyrir stæði jafnvel þó þau séu langt frá miðborginni.
Ef það væri hugsjónin hér að baki að við vildum að fólk greiddi fyrir raunkostnaðinn af bílastæðum, sem við ættum í raun að gera, þá væru gjöldin miklu, miklu hærri og gjaldskylda væri miklu víðar. Við erum hins vegar fyrst og fremst að hugsa um stýringu á nýtingu bílastæða,“ segir Dóra Björt að lokum.