Ný stefna Reykjavíkurborgar í bílastæðamálum virðist nú byrjuð að teygja anga sína yfir á einkalóðir borgarbúa. Bílastæðagjöld í miðbænum hækkuðu um 40% í október á síðasta ári, íbúum og starfsfólki til mikillar armæðu, en bílastæðasjóður rukkar nú einnig á hvíldardeginum sjálfum, sunnudegi.
Anna Ringsted er mörgum fagurkerum kunnug og hélt lengi úti antikversluninni Fríðu Frænku á Vesturgötunni. Anna er íbúi í miðborg Reykjavíkur og lýsti í gær raunum sínum í færslu í facebook-hópnum Íbúar í Miðborg, og kvaðst hafa fengið sekt frá bílastæðasjóði fyrir að leggja í stæði á einkalóð sinni.
Blaðamaður mbl.is ræddi við dóttur Önnu, Elísabetu Ýri Sveinsdóttur, sem furðar sig á upplýsingagjöf Reykjavíkurborgar, eða skorti þar á. Bílastæðið hafi verið notað sem slíkt löngu áður en foreldrar hennar keyptu húsið fyrir 40 árum og engin vandkvæði verið þar á þar til í síðustu viku.
„Ég hélt bara að þetta væri einhver misskilningur, mögulega bara einhver nýr því þetta er augljóslega einkalóð og þetta hefur alltaf verið svona,“ segir Elísabet.
„En svo fáum við þessi viðbrögð frá Reykjavíkurborg um að þetta vær ekki á deiluskipulagi sem bílastæði og því mætti ekki leggja þarna þótt þetta væri einkalóð,“ segir Elísabet.
Elísabet, sem annast málið fyrir móður sína, hafði í kjölfarið samband við Reykjavíkurborg og segir viðmótið þar ekki hafa verið sérstaklega hjálplegt. Sér hafi verið tjáð að hún gæti ekki rætt við neinn starfsmann um málið símleiðis heldur gæti einungis sent kvartanir rafrænt.
Elísabet furðar sig á svörum sem bárust við kvörtuninni, en þar var kveðið á um að deiluskipulag geri ekki ráð fyrir bílastæði á lóðinni. Hún hafi aftur á móti fundið gamla mynd af húsinu á Google Maps, áður en göngustígur var lagður þar fyrir utan, en þar má greinilega sjá merkta innkeyrslu fyrir framan stæðið.
„Ég skil alveg ef þetta er ekki á deiluskipulagi, þá væri bara allt í lagi að upplýsa íbúann um það og gefa honum einhvern frest til að sækja um þetta í deiluskipulagi eða upplýsa um hvað hann getur gert,“ segir Elísabet en hún segir engar frekari upplýsingar eða ráðleggingar hafa fylgt frá borginni. Það komi sér spánskt fyrir sjónir að Reykjavíkurborg leyfi sér að sleppa því að upplýsa íbúa um breytingar.
„Þegar þessi hjólastígur settur var þessu breytt en ekkert sagt við okkur,“ segir Elísabet en nokkur ár eru liðin síðan og segir Elísabet engan hafa gert athugasemdir við að íbúar hússins legðu þar áfram, þar til í síðustu viku.
Hún minnist þess meira að segja að hafa sótt um íbúakort hjá bílastæðasjóði fyrir nokkrum árum, er hún bjó hjá foreldrum sínum, en þá verið synjað vegna þess að bílastæði væri þegar á lóðinni.
Móðir hennar myndi glöð borga fyrir bílastæði inni á lóðinni eða jafnvel bílastæðakort. Henni hefðu þá þurft að berast upplýsingar um að allt í einu mætti ekki leggja á bílastæðinu lengur og fá tækifæri til að sækja um það.
Móðir hennar sé til að mynda nýbúin að kaupa sér rafmagnsbíl og hleðslustöð, einmitt svo hún gæti hlaðið bílinn í stæðinu heima.
Elísabet segir það einnig furðulegt að hún sjái hvergi í deiluskipulagi skilgreind bílastæði á lóðunum í kring, þrátt fyrir að þar séu þó nokkur bílastæði. Nágrannar þeirra hafi aftur á móti ekki verið sektaðir. Það virðist því nánast sem gengið sé um og valið af handahófi hvar skuli sekta.
Hún skilji ekki tilganginn með sektunum á lóðinni enda sé móðir hennar ekki að koma í veg fyrir stæði á vegum Reykjavíkurborgar fyrir framan lóðina, enda hafi aldrei verið leyfilegt að leggja þeim megin götunnar.
Aðspurð segir hún stefnu Reykjavíkurborgar, sem leggur áherslu á að minnka bílaumferð í miðbænum, ekki ganga upp þegar ekki eru almennilegar almenningssamgöngur í boði í staðinn.
„Ég skil bara ekki hvernig það truflar Reykjavíkurborg að mamma sé með bílastæði inni á sinni lóð, sem hefur verið bílastæði í 40 ár,“ segir Elísabet að lokum.