Árið 2040 munu tæplega 3 þúsund manns greinast með krabbamein hér á landi, sem er 57% hlutfallsleg fjölgun á nýjum tilfellum miðað við um 1.900 greiningar árið 2022.
Fjölgun tilfella í Evrópu er einna mest á Íslandi. Þetta kemur fram í nýrri spá Krabbameinsfélagsins
Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (WHO) spáir mikilli fjölgun krabbameinstilfella í heiminum. Samkvæmt stofnuninni mun nýjum tilfellum krabbameinstilfella fjölga um 77% árið 2050.
Spá WHO nær til alls heimsins en langsamlega mestu hlutfallslegu fjölguninni er spáð í þróunarríkjum, ríkjum í Asíu, Afríku og Suður-Ameríku. Spáð er minnstri hlutfallslegri fjölgun í Evrópu.
Ef litið er á fjölgun tilfella í Evrópu einni og sér þá er spáð einna mestri fjölgun nýrra tilfella á Íslandi segir Sigríður Gunnarsdóttir forstöðumaður hjá Krabbameinsfélaginu.
Samkvæmt nýjustu spá Krabbameinsfélagsins, sem byggir á gögnum frá árslokum 2022 og spáir til ársins 2040, þá er gert ráð fyrir 57% hlutfallslegri fjölgun á krabbameinstilfellum á Íslandi.
„Þetta þýðir að við erum að fara úr 1.800 nýjum tilfellum á ári í 2.900 ný tilfelli,“ segir Sigríður.
Sigríður segir fjölgun hér á landi mega að mestu rekja til aldursbreytinga í samfélaginu.
„Fjölgunin er ekki tengd aukinni einstaklingsbundinni áhættu heldur erum við að sjá hækkandi meðalaldur á landinu. Krabbamein er fyrst og fremst sjúkdómur eldra fólks.“
Þá bætir hún við að Íslendingar séu yngri þjóð en til dæmis nágrannalönd okkar. Þess vegna erum við aðeins á eftir þeim í þessari þróun en þeir hópar sem eru að komast á aldur eru hlutfallslega mikið stærri hér á landi.
„Fæðingartíðni á Íslandi var mikið hærri en almennt í Evrópu fram til 1960, íslenskar konur eignuðust að meðaltali fjögur börn á meðan evrópskar konur eignuðust tvö. Það er því mikil fjölgun í þessum elstu kynslóðum hér, eins og annars staðar í vestrænum heimi, en okkar kynslóðir eru næstum tvöfalt stærri en á hinum löndunum.“
Í tilkynningu WHO segir að rekja megi þessa fjölgun að mestu leyti til reykinga, áfengis, offitu og loftmengunar.
Ekki eru alveg sömu skýringar bak við fjölgunina hér á landi segir Sigríður en bætir þó við að þessi áhrifaþættir hafi auðvitað alltaf áhrif.
„Við höfum náð góðum árangri til dæmis í tóbaksvörnum og við sjáum að nýjum tilfellum lungnakrabbameins fækkar. Aftur á móti sjáum við fram á að önnur krabbamein munu aukast á næstu árum, þá helst ristils- og endaþarmskrabbamein.“
„Þessi fjölgun mun auka þjónustuþörf í heilbrigðiskerfinu gríðarlega og það er margt sem þarf að gera ef við ætlum að ráða við þetta.“
Þá segir Sigríður hún myndi til dæmis vilja sjá meiri forvarnarvinnu til að draga úr fjölguninni. Aðgerðir sem stuðla að heilbrigðum lífstíl, draga úr reykingum, áfengisnotkun og ofþyngd. Þetta gæti hjálpað okkur við að minnka líkurnar á því að spáin rætist.
„Annað sem skiptir mjög miklu máli er að tryggja skimun þannig hægt sé að greina krabbamein snemma því það hefur mikil áhrif á lifun og lífsgæði að greint sé snemma.“
Sigríður segir til að mynda ekki nægilega hátt þátttökuhlutfall í skimun, þá sérstaklega brjóstaskimun, og að það sé eitthvað sem þyrfti að breytast. Á Íslandi er einnig ekki byrjað að skima fyrir ristil- og endaþarmskrabbameini, sem er spáð að muni aukast á næstu árum.
Flest nágrannalönd Íslands hafa byrjað á þeirri skimun. Það er verið að vinna í því að hefja skimun á Íslandi en brýnt að flýta fyrir því að það verði gert að sögn Sigríðar.