Telja eldgos mögulegt á næstu dögum

Unnið að varnargörðum við Svartsengi.
Unnið að varnargörðum við Svartsengi. mbl.is/Eyþór Árnason

Vísindamenn á Veðurstofu Íslands funduðu í morgun um stöðu mála á Reykjanesskaganum. Telja þeir að búast megi við því að það dragi til tíðinda á næstu dögum eða rúmri viku, sem geti endað með eldgosi.

„Á stöðufundinum í morgun var rýnt í nýjustu gögn og líkanreikninga sem byggja á GPS-mælum og gervitunglamyndum og þar sjáum við að landrisið og kvikusöfnunin undir Svartsengi heldur áfram,“ segir Einar Bessi Gestsson náttúruvársérfræðingur við mbl.is.

Áætlað er að rúmmálið af kviku sem er búið að safnast saman undir Svartsengi sé farið að nálgast því sem var fyrir síðasta eldgos.

Myndast mögulega kvikugangur og eldgos í kjölfarið

Hann tekur fram óvissa sé í líkanreikningum hvað varðar tímarammann en á næstu dögum eða rúmri viku þá verði rúmmálið orðið það sama og fyrir eldgosið 14. janúar.

„Þegar því er náð eða svipað þá eru auknar líkur á að það dragi til einhverra tíðinda. Það myndast mögulega kvikugangur og í kjölfarið eldgos eða bara kvikuhlaup,“ segir Einar Bessi.

Hann segir að það sé óvissa hvort þrýstingur í kerfinu þurfi að komast aðeins hærra en fyrir síðasta eldgos og að stíf vöktun verði í gangi eins og hefur verið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka