„Árásin er umfangsmikil“

Háskólinn í Reykjavík.
Háskólinn í Reykjavík. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Talið er að rússneski tölvuárásarhópurinn Akira hafi staðið að baki tölvuárásar sem var gerð á Háskólann í Reykjavík (HR) í gær. Netöryggissérfræðingar og starfsmenn hafa unnið sleitulaust að því að koma kerfum háskólans af stað og endurheimta gögn.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá HR.

„Árásin er umfangsmikil en vinnunni hefur miðað í rétta átt,“ segir í tilkynningunni, en hópurinn Akira hefur áður gert sambærilegar árásir hér á landi og í nágrannalöndum. 

Enn sem komið er er ekkert sem bendir til að önnur gögn hafi lekið til árásaraðilanna en grunnupplýsingar um notendur, það er að segja nöfn, kennitölur, HR-netföng og dulkóðuð lykilorð inn á kerfi HR.

Kennsla hefst á mánudag 

„Til þess að auka öryggi gagna lokuðu sérfræðingar HR því fyrir kerfi skólans. Upplýsingar um opnun kerfa verða veittar um leið og hægt er. Þótt lykilorð séu dulkóðuð eykur þetta líkur á auðkennisþjófnaði,“ segir í tilkyningunni. 

Þá segir að hafi nemendur og starfsfólk HR notað HR-lykilorðið sitt sem auðkenni annars staðar verði þau að skipta um lykilorð á þeim stöðum, og er fólk hvatt til að vera á varðbergi gagnvart skilaboðum og póstum sem benda til netveiða.

Einnig er bent á að nota tvíþátta auðkenningu alls staðar þar sem það er í boði.

„Sem stendur er ekki hægt að greina frekar frá þeirri vinnu sem verið er að vinna en notendur og aðrir verða upplýstir um leið og unnt er.“

Kennsla fer fram mánudaginn 5. febrúar nema annað verði tilkynnt sérstaklega á vefsíðu skólans. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert