Ég elska óvissuna

Halldóra ætlar út fyrir þægindaramman og er hætt í leikhúsinu …
Halldóra ætlar út fyrir þægindaramman og er hætt í leikhúsinu að sinni að minnsta kosti. mbl.is/Ásdís

Á kaffihúsi einu á Skólavörðustíg situr leikkonan Halldóra Geirharðsdóttir í notalegu horni með kaffið sitt. Þar er gott næði til að spjalla um líf og tilveru þessarar vinsælu leikkonu sem heillað hefur þjóðina í fjölmörgum eftirminnilegum hlutverkum; á sviði, í sjónvarpi og í kvikmyndum. Halldóra stendur nú á tímamótum; hún er búin að segja upp í Borgarleikhúsinu eftir tæpa þrjá áratugi og einnig hefur hún sagt starfi sínu lausu sem fagstjóri sviðslistabrautar í Listaháskólanum. Halldóra viðurkennir að hún þurfi á hvíld að halda, enda hefur hún nú leikið í yfir 200 sýningum á Níu lífum, auk annarra verkefna. Nú er komið að nýjum kafla; framtíðin er óskrifað blað og Halldóra er spennt eins og lítið barn á jólum.

Erfiðara að kveikja neistann

Söngleikurinn um líf Bubba hefur verið mikið ævintýri að sögn Halldóru, en fyrir þá sem ekki vita leikur hún hlutverk Bubba; einn af níu leikurunm sem hann túlka.

Eftir 233 sýningar á Níu lífum viðurkennir Halldóra að þrátt fyrir sterkan boðskap sýningarinnar sé hún orðin þreytt og að sífellt verði erfiðara að finna neistann.

„Ef ég líki sjálfri mér við hús, þá er ég að verða búin með viðinn sem ég var búin að safna við húsið. Nú þarf ég aðeins að fara að fara aftur út í skóg að sækja meiri eldivið til að geta sett aftur inn í ofninn. Þegar maður kveikir aftur og aftur í sama drumbnum er maður lengur að ná upp neista,“ segir hún og að myndböndin sem hún taki upp fyrir og eftir sýningu sýni glögglega að oft er hún buguð áður en hún stígur á svið.

Að leika í Níu lífum yfir 200 sinnum var krefjandi!
Að leika í Níu lífum yfir 200 sinnum var krefjandi!

„Þetta er starf leikarans og þetta vitið þið ekkert. Þegar við mætum upp í leikhús erum við oft búin að vera í öðrum vinnum, gefa börnunum að borða og við erum ekkert alltaf í stuði. En sem fagmaður verður maður samt að ná að kveikja á orkunni,“ segir hún og nefnir að vissulega geti verið þreytandi fyrir leikara að leika sama hlutverkið svona oft.

„Ég hef aldrei lent í svona áskorun, þó ég hafi leikið Sex í sveit og Ormstungu um 140 sinnum. Maður fer í hringi og þarf að enduruppgötva verkið og dýptina í því,“ segir hún og bætir við að sýningin taki einnig gríðarlega á líkamlega.

„Í haust reyndi ég að halda allri annarri vinnu frá mér svo ég ætti líkamlega fyrir sýningunum,“ segir Halldóra, en eins og þeir vita sem séð hafa Níu líf er Halldóra í afar kraftmiklu og krefjandi hlutverki og þeysist um allt sviðið í dansi og söng.

Er ekkert verri en strákarnir

Er erfitt fyrir konur á miðjum aldri og eldri að fá bitastæð hlutverk eða hefur það breyst?

„Ég er 55 og hef bara leikið eitt aðalhlutverk í bíómynd. En nú þarf ég að skrifa og er að skrifa handrit að bíómynd og ég skrifa með sjálfa mig í huga fyrir aðalhlutverkið. Svo kemur bara í ljós hvort handrit verði að bíómynd. Það get ég ekki vitað en það er mjög gaman að skrifa – þannig að þetta er sannarlega ekki tapaður tími. En ef ég vil fá aðalhlutverk verð ég að skrifa það sjálf því það er enginn að skrifa fyrir mig. Ég sé þetta sem hluta af því að taka ábyrgð á framtíð minni,“ segir hún og nefnir að hún hafi áttað sig á því í Cannes að mögulega þyrfti hún sjálf að búa sér til hlutverk.

„Þetta fattaði ég ekki fyrr en ég sá Kona fer í stríð á stóra tjaldinu í Cannes og hugsaði „heyrðu, ég er nú bara ansi góð!“. Ég er ekkert verri en strákarnir og það er ekkert ástæðan fyrir því að þeir fengu góð hlutverk en ég engin. Það var bara vegna þess að það var aldrei hlutverk fyrir mig. Síðan þá hef ég verið að berjast við að skrifa og ég hef gaman af því,“ segir Halldóra og vill ekki gefa meira upp um efni myndarinnar en er spennt að skapa sér sjálf tækifæri.“

Eitthvað gott kemur til mín

Ertu í miðlífskrísu?

„Alveg örugglega! Ég er búin toppa mig; ég lék í Kona fer í stríð og í Bubba og hvaðan fer ég þaðan? Ég hélt að eftir Kona fer í stríð fengi ég hlutverk í útlöndum, því ég fékk verðlaun og mikla athygli en síminn hringir ekki. Ég gat ekki losnað við að hugsa um hvað tæki við næst, eftir Níu líf. Mér fannst eins og ég yrði að gera eitthvað stærra til að stækka mig sem listamann. Þetta var mjög óþægileg tilfinning sem ég kunni ekki við og þá læddist að mér sú hugsun að næsta stækkun ætti að vera inn á við. Mér finnst ég rosalega hugrökk að segja upp föstum samningi leikara á þessum aldri, enda fáar fastar stöður til fyrir leikara. Ég er ánægð með mig, að sleppa öryggislínunni minni. En það kemur ekkert annað til greina,“ segir hún og brosir.

Halldóra getur ekki beðið eftir að njóta frelsisins.

„Nú er ég svakalega spennt fyrir svo mörgu. Ég er á tímamótum og ég hef það á tilfinningunni að eitthvað gott komi til mín, en mín aðaláskorun er að vera meira með sjálfri mér og ég segi nei við vinnu daglega. Nú er ég að endurkenna mér að vera til og að elska óvissuna. Ég er samt spennt fyrir öllu og kannski er það minn stærsti óvinur.“

Ítarlegt viðtal er við Halldóru í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins um helgina. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert