Gefa út leiðbeinandi viðmið um farsímanotkun barna

Mennta- og barnamálaráðuneytið hefur í hyggju að gefa út leiðbeinandi …
Mennta- og barnamálaráðuneytið hefur í hyggju að gefa út leiðbeinandi viðmið um farsímanotkun barna í grunnskólum. mbl.is/Hari

Mennta- og barnamálaráðuneytið hefur í hyggju að gefa út leiðbeinandi viðmið um farsímanotkun barna í grunnskólum sem verða unnin í víðtæku samráði við alla innan skólasamfélagsins. 

Frá þessu er greint í svari mennta- og barnamálaráðherra við fyrirspurn frá Evu Sjöfn Helgadóttur, þingmanni Pírata, um dreifingu nektarmynda af ólögráða einstaklingum.

Forvarnarteymi tryggja fræðslu 

Eva spyr hvort og þá hvernig ráðherra hyggist bregðast við því að upp undir 30% stúlkna í 10. bekk hafi sent af sér ögrandi mynd eða nektarmynd, eins og fram kemur í skýrslunni Ungt fólk 2022.

Í svari ráðherra segir að á undanförnum árum hafi verið unnið að margháttuðu fræðslu- og forvarnarstarfi gagnvart hverskonar ofbeldi gegn börnum á vegum ríkis og sveitarfélaga. Þá segir að gefnar hafi verið út handbækur og leiðbeiningar til skóla og annarra aðila sem starfa með börnum og ungmennum. 

Auk þess segir hann frá forvarnarteymum grunnskólanna sem hafa verið sett á fót innan allra grunnskóla landsins. Teymin hafa það hlutverk að tryggja fræðslu í öllum árgöngum um kynbundið og kynferðislegt ofbeldi og áreitni sem hæfir aldri og þroska nemenda, en allt efni sem hefur verið unnið fyrir skólana í tengslum við umrædda fræðslu er aðgengilegt á vefnum StoppOfbeldi. 

Tryggja örugga farsímanotkun

Að lokum greinir hann frá því að ráðuneytið hafi í hyggju að gefa út leiðbeinandi viðmið um farsímanotkun barna í grunnskólum sem verða unnin í víðtæku samráði við aðila skólasamfélagsins.

Þá segir að í leiðbeiningunum verði fjallað um hvernig unnt sé að tryggja örugga farsímanotkun grunnskólanemenda í skólastarfi, þar á meðal með fullnægjandi fræðslu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert