Kostnaður við hælisleitendakerfið 16 milljarðar í ár

Á næstu 24 mánuðum gerir ríkissjóður ráð fyrir að kostnaður við hælisleitendakerfið muni kosta 32 milljarða króna. Þetta bendir Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra, á í viðtali í Spursmálum.

Kostnaður við kerfið hefur á fáum árum meira en tuttugufaldast að umfangi. Í viðtalinu opnar Guðmundur Ingi á þann möguleika að færa löggjöf í kringum kerfið nær því sem gengur og gerist á öðrum Norðurlöndum þar sem beiðnir um alþjóðlega vernd eru hlutfallslega mun færri en hér á landi.

Gríðarleg aukning

„Það er talið að hann verði um 16 milljarðar í ár og á næsta ári miðað við þær forsendur sem liggja að baki fjárlögum og fjármálaáætlunar. Þegar ég horfi á gögnin síðastliðin tvö ár, 2022-2023, um fjölda þeirra sem hingað eru að koma þá sjáum við náttúrulega að það verður gríðarlega aukning, eðlilega, þegar Rússar ráðast inn í Úkraínu. Og meginþorri þeirra sem hingað eru að koma eru frá Úkraínu og Venesúela. Það hefur samt líka orðið fjölgun í hinum hópnum þannig að það er margt fólk að koma hingað og það er fleira fólk að koma hingað en á hinum Norðurlöndunum og það er fleira fólk að fá vernd hér en á hinum Norðurlöndunum,“ segir Guðmundur Ingi.

- En það er ekki bara hlutfallslega meira. Það er margfaldur munur.

„Ja munurinn er allnokkur. Það sem ég hef áhyggjur af í þessu er að við erum kannski bara ekki að ná öllum þeim markmiðum sem verndarkerfið felur í sér. ég hef áhyggjur af því að við séum ekki að nýta verndarkerfið nægilega vel til þess að bjóða þeim að koma hingað til Íslands sem allra mest þurfa á því að halda. Það höfum við gert með sérstöku boði íslenskra stjórnvalda, oft til fólks sem er í flóttamannabúðum á Alþjóða flóttamannastofnunarinnar, sem við köllum stundum kvótaflóttamenn. Við höfum ekki verið að taka marga slíka inn á undanförnum tveimur árum einfaldlega vegna þess að það eru svo mikill fjöldi sem sækir hingað í gegnum hælisleitendakerfið.

- Við erum bara að taka á móti þeim sem hingað streyma í gegnum flugfélögin og gefa sig upp á landamærunum.

„Já, já og sumt er auðvitað staða þess fólks mjög mismunandi. Og sumt af því fær klárlega alþjóðlega vernd því það er neyð í heimalandinu og því stafar ógn af einhverju í heimalandinu. Síðan er hitt atriðið sem mig langar að nefna varðandi verndarkerfið að það er ekki nægilega skilvirkt. Skilvirknin bitnar á fólkinu og hún bitnar á ríkiskassanum. Við erum að tala um það núna að afgreiðslutími umsókna er kannski tvöfalt lengri en hann ætti að vera, bæði hjá útlendingastofnun og líka hjá kærunefnd útlendingamála.“

- Þrátt fyrir það, eru tölurnar, leyfi ég mér að segja geigvænlegar í samanburði við hin Norðurlöndin. Og mig langar til að spyrja þig út í það því dómsmálaráðuneytið tók saman tölur þar sem að Úkraínubúarnir eru teknir út fyrir sviga og við lítum á það sem sértækt viðfangsefni. Árið 2022 komu hér umsóknir, 2162 talsins og samþykktar voru 1135. Í Danmörku á sama tíma voru umsóknirnar 2.527 og samþykktar 1403. Í Noregi voru þær 4090 og samþykktar 1294. Við erum 400 þúsund. Danirnir eru meira en 5 milljónir og hið sama má segja um Norðmennina. Við erum í allt annarri vídd þegar kemur að þessum tölum. Af hverju er þetta með þessu móti?

„Já, þetta er það sem ég sagði áðan, við erum að fá bæði fleiri umsækjendur og erum að taka á móti fleirum.“

- Af hverju?

„Ja, okkar kerfi er að hluta til opnara en kerfin á Norðurlöndunum. Það eru ákveðnar reglur í útlendingalögunum sem heyra undir dómsmálaráðuneytið...“

- Eru þetta illmenni sem ráða för í Danmörku og Noregi?

„Nei það held ég nú ekki. En lögin eru ekki fyllilega sambærileg, við getum orðað það þannig að þau eru ekki eins. Og það er eitthvað sem verður að horfa til.“

Viðtalið við Guðmund Inga má sjá og heyra í heild sinni hér fyrir neðan:



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert