„Utanríkisráðuneytið leitaði til slökkviliðsins í apríl í fyrra með ósk um hvort Ísland gæti aðstoðað við þjálfun úkraínskra hermanna og erum við nú þegar búnir að þjálfa 250 manns,“ segir Hlynur Höskuldsson, deildarstjóri á aðgerðasviði Slökkviliðsins á höfuðborgarsvæðinu.
Að sögn Hlyns er um að ræða verkefni sem Slökkviliðið á höfuðborgarsvæðinu vinnur fyrir ráðuneytið. Segir hann þetta í annað sinn sem ráðuneytið hafi leitað til slökkviliðsins um aðstoð í slíkum málum, en fyrir tæpum 20 árum var slökkviliðið kallað til í verkefni þegar Ísland var með friðargæslu í Afganistan.
„Hér er um að ræða verkefni sem bráðatæknar frá Slökkviliðinu á höfuðborgarsvæðinu sjá um, en það snýst í raun og veru um að þjálfa úkraínska hermenn sem bráðaliða. Námskeiðið kallast Combat Medical Corpsman, en á hverju námskeiði eru um 50 nemendur,“ segir Hlynur og bætir því við að verkefnið sjálft sé á vegum breska hersins og fari því fram í Bretlandi.
Segir hann ástæðuna fyrir því að leitað sé til Íslands vera þá sérþekkingu sem íslenskir bráðatæknar búi yfir.
„Það eru leiðbeinendur frá Hollandi á námskeiðinu líka en við Íslendingarnir erum í raun og veru þeir einu sem þjálfa en eru ekki hermenn. Námskeiðin standa alltaf yfir í 5-6 vikur og því höfum við verið að senda mannskap út í þann tíma til að aðstoða við þetta, en um nokkrar tegundir af námskeiðum er að ræða.“
Segir Hlynur að með þjálfuninni sé bráðaliðum, þ.e.a.s. úkraínsku hermönnunum, kennt að sinna slösuðum og veikum á vígvellinum, þar sem helstu inngrip séu stöðvun meiriháttar blæðinga, sérhæfð öndunarvegsinngrip, nálauppsetningar, lyfjagjafir og brottflutningur slasaðra. Þá tekur hann fram að flestir áverkarnir séu eftir loft- eða skotárásir og jarðsprengingar.
„Verkefnið er enn í fullum gangi en við erum eins og fyrr segir búnir að þjálfa 250 manns og það er þegar búið að staðfesta að við séum að fara að taka þátt í að þjálfa 100 manns í viðbót. Þessu verður svo eflaust framhaldið,“ segir hann.
Spurður í framhaldinu hvort verkefnið sé ekki heldur óvanalegt fyrir íslenska bráðatækna segir Hlynur svo ekki vera, þar sem allir sem fari út séu vanir að kenna.
„Þetta eru fræði sem við höfum alveg verið að nota, kannski ekki hernaðarhlutinn, enda sjá Bretarnir um allt sem kemur að æfingum á sprengjuárásum og slíku. En um leið og fólk er orðið slasað eða veikt nýtist sérþekking okkar. Við berum því í rauninni ábyrgð á allri kennslu á meðferð og að sinna öllum slösuðum, það er sérþekking okkar í þessu.“
Nánari umfjöllun er að finna í Morgunblaðinu sem kom út fimmtudaginn 1. febrúar.