Hafnar því að ríkið yfirbjóði leiguhúsnæði

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra hafnar því að Vinnumálastofnun, sem aflar húsnæðis fyrir flóttamenn, hafi yfirboðið húsnæði á leigumarkaði. Í árslok 2023 dvöldu um 2000 manns í búsetuúrræðum á vegum stofnunarinnar, að því er fram kemur í tölum frá ráðuneyti Guðmundar.

Þetta kemur fram í viðtali við ráðherra í nýjasta þætti Spursmála.

Bendir hann á að stofnunin hafi unnið þrekvirki við að þjónusta þann stóra hóp sem hingað hefur komið í ósk um alþjóðlega vernd.

Vinnumálastofnun hefur áður þurft að bregðast við fullyrðingum í fjölmiðlum um að hún standi í yfirboðum á þessum markaði. Varð það m.a. til þess að stofnunin sendi frá sér yfirlýsingu í fyrra vegna tiltekins máls sem rataði í fjölmiðla og varðaði leigutöku á fjölbýlishúsi í Reykjanesbæ þar sem leigusali sagði upp samningum við aðra leigjendur til þess að hefja viðskipti við Vinnumálastofnun.

Í yfirlýsingunni sagði m.a.:

Hvað varðar leigu á búsetuúrræði fyrir umsækjendur um alþjóðlega vernd hefur Vinnumálastofnun falið Framkvæmdasýslunni/Ríkiseignum að finna slíkt úrræði fyrir hönd stofnunarinnar. Í þessu sambandi tók Framkvæmdasýslan/Ríkiseignir fyrir skemmstu á leigu húsnæði í Reykjanesbæ þar sem fyrir eru leigjendur en í því tiltekna tilviki hefur eigandi húsnæðisins staðfest við Framkvæmdasýslu ríkisins/Rikiseignir að öllum leigjendum verði boðið annað húsnæði sem er í eigu húseiganda þegar gildistími núverandi leigusamninga rennur út. Þá hefur Framkvæmdasýslan/Ríkiseignir staðfest við Vinnumálastofnun að leigan sem greidd er fyrir það búsetuúrræði sem hér um ræðir sé sú sama og núverandi leigjendur greiða.

Viðtalið við Guðmund Inga má sjá og heyra í heild sinni í spilaranum hér fyrir neðan:

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert