Ósátt með fréttaflutning Rúv

Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra birti í morgun færslu á Facebook-síðu sinni …
Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra birti í morgun færslu á Facebook-síðu sinni þar sem hún biðlaði til Rúv að leiðrétta frétt sem þeir birtu í gærkvöldi. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Rétt skal vera rétt. Við verðum að geta gert þá kröfu til Ríkisútvarpsins að fréttaflutningur þess sé áreiðanlegur og hlutlægur. Það á sérstaklega við í viðkvæmum málum eins og því sem hér ræðir. “

Þetta segir Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra í færslu sem hún birti í morgun á Facebook-síðu sinni. Þar svarar ráðherrann fyrir frétt sem birt var í kvöldfréttum Rúv og á vef miðilsins í gærkvöldi. 

Fréttin leiðrétt í kjölfar færslunnar

Í frétt Rúv var meðal annars vitnað í orð Guðrúnar, í viðtali við mbl.is þann 29. desember, að ekkert Norðurlandanna framkvæmdi fjölskyldusameiningar, eftir því sem hún kæmist næst.

Fréttin hefur verið leiðrétt og segir þar nú að í annarri frétt inni á mbl.is, sem birtist þann 4. janúar, komi fram hjá ráðherra að orðalagið hafi verið ónákvæmt í fréttinni sem birt var í desember. Ráðherrann hafi ekki átt við rétt til fjölskyldusameiningar heldur hvort yfirvöld væru að sækja fjölskyldur á stríðshrjáð svæði á grundvelli hennar.

Tilkynning fór inn fyrir mistök 

Á vef dómsmálaráðuneytisins í gærkvöldi birtist tilkynning með yfirskriftinni „Ranghermi hjá Rúv“, sem fljótlega var þó fjarlægð. Þar var fyrrgreindur fréttaflutningur gagnrýndur.

Innt eftir útskýringum segir Guðrún að tilkynningin hafi farið á vefinn fyrir mistök.

„Ég ætlaði að birta hana inni á minni persónulegu síðu,“ segir hún og bætir því við að lokum að verið sé að vinna í henni og hún verði að öllum líkindum sett inn á vef dómsmálaráðuneytisins á næstu dögum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert