Gerðarverðlaunin voru veitt í fjórða sinn í dag í Gerðarsafni í Kópavogi en þau eru til heiðurs Gerði Helgadóttur myndhöggvara. Eru þau veitt listamanni fyrir ríkulegt framlag til höggmynda- og rýmislistar á Íslandi.
„Þetta er mikill heiður og gaman að fá einmitt þessi verðlaun, Gerðarverðlaunin, því hún var mikill frumkvöðull og flott listakona,“ segir Ragna Róbertsdóttir, myndlistarkona og handhafi verðlaunanna í ár.
Fyrri handhafar Gerðarverðlaunanna eru Rósa Gísladóttir, Þór Vigfússon og Finnbogi Pétursson.
Verðlaunin í ár hlýtur Ragna fyrir metnaðarfullt og kröftugt framlag til höggmyndalistar en eins og segir í tilkynningu frá Gerðarsafni eru verk Rögnu „könnun á samspili rýmis og efnis þar sem hún teygir mörkin á því sem við skilgreinum sem höggmyndalist. Ragna sækir í íslenska náttúru í verkum sínum þar sem efniviður á borð við hraun, ösku, steina, sjávarsalt, jarðefni og torf taka á sig mynd stórra innsetninga og skúlptúrverka. Verk hennar eru gjarnan unnin beint í rýmið og skapa þannig spennu og samtal milli mannlegs inngrips, náttúrulegra efna og eiginleika staðarins. Ragna veitir okkur nýja sýn á samruna náttúru og þess manngerða í verkum sem leika á mörkum höggmyndalistar, tvívíðra verka og innsetninga.“
Nánar verður rætt við Rögnu á menningarsíðum Morgunblaðsins á mánudaginn, 5. febrúar.