Skýrt ákall Hæstaréttar

Eyjólfur Ármannsson, þingmaður Flokks fólksins og fyrsti varaformaður allsherjar- og …
Eyjólfur Ármannsson, þingmaður Flokks fólksins og fyrsti varaformaður allsherjar- og menntamálanefndar, kveður dóminn í máli Brynjars skýrt ákall Hæstaréttar um að löggjafinn dagrétti refsilöggjöf þannig að hún falli að breyttum samskiptaháttum og nýjum tækifærum til ódáða gagnvart börnum. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Þetta er mjög áhugaverður dómur á gríðarlega mikilvægu sviði sem lýtur að börnum og mikilvægt að Alþingi bregðist við,“ segir Eyjólfur Ármannsson, þingmaður Flokks fólksins og fyrsti varaformaður allsherjar- og menntamálanefndar Alþingis, um dóm Hæstaréttar í lok janúar í máli Brynjars Joensens Creed en Kolbrún Benediktsdóttir vararíkissaksóknari ræddi við mbl.is í fyrradag.

Segir Eyjólfur Hæstarétt senda löggjafanum skýrt ákall um að sinna þeirri ótvíræðu skyldu sinni að vernda börn gegn hvers konar misnotkun, þar á meðal kynferðislegri, og vitnar hann þar beint í orðalag Hæstaréttar.

„Í dóminum er einnig mjög áhugaverð umfjöllun um sambærileg ákvæði í Noregi og Svíþjóð og að þau séu ítarlegri en nái beinlínis ekki til þess þegar ákærði er fjarstaddur,“ segir þingmaðurinn sem hyggst kalla nefnd sína saman í ljósi ummæla Hæstaréttar.

Dómarar Hæstaréttar fóru ekki í neinar grafgötur með álit réttarins …
Dómarar Hæstaréttar fóru ekki í neinar grafgötur með álit réttarins á hlutverki og skyldum löggjafarsamkomu þjóðarinnar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Mikilvægt að hegningarlög fylgi þróun

„Ég mun óska eftir fundi í allsherjar- og menntamálanefnd til að fjalla um dóminn og að sérfræðingar dómsmálaráðuneytisins komi fyrir hana til að ræða dóminn og viðbrögð við honum,“ segir Eyjólfur og reiknar með að málið gangi áfram þaðan.

„Ég á von á að í framhaldinu fari málið til refsiréttarnefndar, sem hefur það hlutverk að vera til ráðgjafar og semja frumvörp á sviði refsiréttar. Það er hlutverk dómsmálaráðherra að óska eftir því við nefndina. Ég mun að minnsta kosti leggja það til við ráðherra,“ segir Eyjólfur.

Hann kveður það mjög mikilvægt að hegningarlög fylgi þeirri hröðu þróun sem Hæstiréttur fjallar um í dómi sínum þar sem berum orðum segi að aukin netnotkun barna og breytt samskiptamynstur þeirra í milli og við aðra með notkun samskiptaforrita og samfélagsmiðla geri þau berskjölduð gagnvart kynferðislegri háttsemi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert